Handbolti

Ari Magnús snýr aftur með FH: Örugglega hættur ef ég væri ekki örvhentur

Sindri Sverrisson skrifar
Ari Magnús Þorgeirsson er orðinn leikmaður FH á nýjan leik.
Ari Magnús Þorgeirsson er orðinn leikmaður FH á nýjan leik. FH

Örvhenta skyttan Ari Magnús Þorgeirsson hefur tekið fram handboltaskóna og skrifað undir samning við uppeldisfélag sitt FH.

Ari Magnús lagði skóna á hilluna í sumar en síðastliðin tímabil hefur hann gegnt stóru hlutverki hjá liði Stjörnunnar.

Ari Magnús fór frá FH eftir tímabilið 2012-13 og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2011.

„Við FH-ingar erum virkilega ánægðir með að fá Ara heim í FH. Ari mun styrkja okkur mikið hægra megin á vellinum enda virkilega öflugur og þrautreyndur leikmaður,“ er haft eftir Sigurgeiri Árna Ægissyni, framkvæmdastjóra handknattleiksdeildar FH, í tilkynningu. „Það verður frábært að sjá Ara í svörtu og hvítu á nýjan leik, það eru hans litir,“ sagði Sigurgeir.

Viðtal FH-inga við Ara Magnús sjálfan má sjá hér að neðan þar sem hann segir alltaf hafa verið markmiðið að ljúka ferlinum með FH. Hann hafi þó verið búinn að missa áhugann á handbolta síðasta vor:

„Ef ég væri ekki örvhentur þá væri ég örugglega hættur. En svo bara fékk ég áhugann aftur. Í lokin á síðasta tímabili var ég aðeins búinn að missa áhugann en svo var maður að horfa á leikina í sjónvarpinu og þá kitlaði að koma inn á völlinn aftur og snerta aðeins harpixið,“ sagði Ari en viðtalið má sjá hér að neðan.

Klippa: Ari Magnús í viðtali við FH



Fleiri fréttir

Sjá meira


×