Innlent

Kuldamet líklega slegið á Þingvöllum í nótt

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Þingvöllum. Myndin er úr safni.
Frá Þingvöllum. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Líklegt er að kuldamet í september hafi verið slegið á Þingvöllum þegar hitamælir í þjónustumiðstöðinni í þjóðgarðinum sýndi -9,5°C frost í nótt. Veðurfræðingur segir að heiðríkja og þurrt loft í háloftunum hafi stuðlað að kuldanum.

Veðurstofan gat ekki staðfest strax að um kuldamet á Þingvöllum í septembermánuði væri að ræða en í yfirliti hennar um tíðarfar í september árið 2018 sagði að þær -8,7°C sem mældust þar 23. september það ár hafi verið mesta frost þar frá upphafi mælinga.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir við Vísi að sérstakar veðuraðstæður hafi verið til staðar í nótt sem framkölluðu frostið. Loftið yfir landinu hafi ekki verið sérlega kalt en í háloftunum, í um fjögurra til átta kílómetra hæð, hafi verið afar þurrt loft ættað frá norðurheimskautinu.

Vatnsgufa og ský halda varma við yfirborð jarðar en á heiðskírri nóttu eins og nú í nótt nýtur þeirra temprandi áhrifa ekki við.

„Þá er ekkert sem vinnur á móti útgeislun jarðar sem er á fullri ferð. Þess vegna verður svo kalt við yfirborð og kaldast þar sem vindur er hægur eða nánast logn og kalda loftið getur safnast fyrir í polla. Þingvalladældin er einmitt þekktur kuldapollastaður,“ segir Einar til útskýringar.

Næturfrost gerði einnig í Reykjavík í nótt, allt niður í -3°C snemma í morgun. Einar telur það köldustu septembernótt í höfuðborginni frá árinu 2005. Aðeins hefur mælst næturfrost í september þriðja hvert ár undanfarin tuttugu ár, að því er segir í Facebook-færslu Einars sem vakti athygli á kuldanum í nótt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.