Sport

Spáir Katrínu Tönju í ofurúrslitin: Ekki átt frábært ár en hefur auga tígrisdýrsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir í auglýsingu frá NOBULL. Hún hefur mikla reynslu og margir hafa trú á henni á heimsleikunum í ár þrátt fyrir misgott gengi til þessa á árinu.
Katrín Tanja Davíðsdóttir í auglýsingu frá NOBULL. Hún hefur mikla reynslu og margir hafa trú á henni á heimsleikunum í ár þrátt fyrir misgott gengi til þessa á árinu. Mynd/Instagram

Keppniskonan Katrín Tanja Davíðsdóttir á sér aðdáenda í CrossFit sérfræðingnum Armen Hammer sem spáir því að hún verði ein af þremur íslenskum keppendum sem komist í fimm manna ofurúrslit heimsleikanna í CrossFit í ár.

Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur kannski verið meira í sviðsljósinu fyrir að berjast fyrir sínu sporti en í keppnum ársins til þessa. Einn af sérfræðingum CrossFit heimsins hefur þó mikla trú á henni á heimsleikunum um næstu helgi.

CrossFit fjölmiðlamaðurinn Armen Hammer fór yfir spá sína um hvaða fimm karla og fimm konur komast áfram í Ofurúrslit heimsleikanna í CrossFit og hann fær stóran plús í kladdann sinn fyrir að spá öllum íslensku keppendunum áfram.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að hann spái þeim Björgvini Karli Guðmundssyni og Söru Sigmundsdóttur áfram í úrslitin enda hafa þau bæði átt frábært ár.

Það er hins vegar spá hans um þriðja íslenska fulltrúann í fimm manna ofurúrslitum kvenna sem vekur nokkra athygli enda hefur Katrín Tanja Davíðsdóttir ekki verið alltof sannfærandi í keppnum ársins.

„Hún hefur ekki átt frábært ár en ég held að Katrín hafi auga tígrisdýrsins þegar hún hugsar: Enginn trúir á mig og ég stend ein í þessu,“ sagði Armen Hammer sem hefur mikla trú á andlegum styrk og keppnishörku íslensku CrossFit stjörnunnar.

„Ég held að hún hafi möguleika á því að blómstra í þessu umhverfi þar sem kannski margir aðrir keppendur muni lenda í vandræðum,“ sagði Armen Hammer.

„Ég held að margir telji að hennar dagar að keppa um sæti á verðlaunapallinum séu að baki af því að við höfum ekki séð mikið af henni í þeirri baráttu að undanförnu,“ sagði Niki Brazier sem ræddi við Armen Hammer í myndbandi Morning Chalk Up.

„Hún er án nokkurs vafa heimsmeistari í CrossFit því þú vinnur ekki tvo titla fyrir tilviljun. Hún er án vafa íþróttakona sem keppir um verðlaunasæti. Hún hefur átt nokkur slæm ár en það hefur Sara líka átt,“ sagði Armen Hammer og bætti við:

„Katrín er mun stöðugri keppandi en Sara. Hlutirnir duttu ekki með Katrínu á árinu 2019 en henni tókst samt að komast í lokahópinn á leikunum. Það er sú Katrín sem við þekkjum öll og elskum. Þó að hún hafi komist aftur í toppbaráttuna undanfarið og hafi ekki unnið síðan 2016 þá hefur hún alla hæfileikana til að berjast um topp fimm sæti,“ sagði Armen Hammer.

„Þetta er í spilunum hjá Katrínu og þá skiptir ekki máli hvernig æfingarnar verða. Árið 2020 hefur kannski ekki verið frábært hjá henni en ég vil ekki afskrifa hana,“ sagði Armen Hammer en það má sjá alla spána hans og rökstuðninginn hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×