Sport

ÍSÍ greiðir rúmar 150 milljónir króna til í­þrótta­fé­laga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ.
Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ. MYND/LÖGREGLAN

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍSÍ, hefur ákveðið að greiða rúmlega 150 milljónir króna til íþróttahreyfingarinnar hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem sambandið gaf frá sér í dag.

Í tilkynningunni segir að ÍSÍ hafi skipað vinnuhóp þann 25. mars sem ætti að móta tillögur hvernig best væri að skipta þeim fjármunum sem renna frá ríkinu til íþróttahreyfingarinnar vegna áhrifa kórónufaraldursins.

Rúmum mánuði síðar eða þann 29. apríl var svo undirritaður samningur á milli mennta- og menningarmálaráðherra og ÍSÍ um 450 milljón króna stuðning vegna kórónufaraldursins. Þann 19. maí síðastliðinn fengu 214 íþrótta- og ungmennafélög landsins greiddar tæplega 300 milljónir í almennri aðgerð.

Þann 26. maí síðastliðinn var svo auglýst eftir umsóknum vegna sértækra aðgerða frá sambandsaðilum og íþrótta- og ungmennafélögum sem höfðu orðið fyrir tapi eða tekjufalli. Til úthlutunar voru eftirstöðvar fjárframlags ríkisins, tæplega 150 milljónir króna.

Vinnuhópurinn skilaði af sér tillögum þann 27. ágúst síðastliðinn og voru þær tillögur samþykktar af framkvæmdastjórn ÍSÍ og mennta- og menningarmálaráðherra. Var þeim 150 milljónum sem eftir voru því úthlutað í dag til þeirra félaga sem þurftu á sértækum aðgerðum að halda vegna kórónufaraldursins.

Úthlutunin byggir á tillögum vinnuhópsins. Alls bárust 98 umsóknir vegna sértækra aðgerða. Heildarupphæð umsókna voru tæpar 700 milljónir krónur.

Hér á má sjá yfirlit yfir styrkúthlutun og hér má sjá úthlutunarreglur vegna sértækra aðgerða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.