Erlent

Lík­legt að sendi­herra verði næsti for­sætis­ráð­herra Líbanon

Sylvía Hall skrifar
Mustapha Adib (t.v.) er sendiherra Líbanon í Þýskalandi. Hann er talinn líklegur til þess að taka við Hassan Diab (t.h.) sem sleit ríkisstjórninni fyrr í mánuðinum.
Mustapha Adib (t.v.) er sendiherra Líbanon í Þýskalandi. Hann er talinn líklegur til þess að taka við Hassan Diab (t.h.) sem sleit ríkisstjórninni fyrr í mánuðinum. EPA/AP

Mustapha Adib, sendiherra Líbanon í Þýskalandi, er reiðbúinn til þess að taka við forsætisráðherrastólnum í Líbanon eftir stuðningsyfirlýsingu fjögurra fyrrum forsætisráðherra landsins. Honum yrði þá ætlað að mynda ríkisstjórn eins fljótt og auðið er. Frá þessu er greint á vef Reuters.

Michel Anoun mun hitta leiðtoga fylkinganna á líbanska þinginu í fyrramálið til þess að ræða tilnefningu næsta forsætisráðherra. Hann þarf því að tilnefna þann sem hefur mesta stuðninginn á meðal þingmanna en áður hafði verið talið að samningaviðræður gætu dregist á langinn.

Líkt og áður sagði yrði Adib ætlað að mynda ríkisstjórn eins fljótt og auðið er, enda ljóst að krefjandi verkefni bíða. Efnahagsmálin hafa verið í miklu ólagi og sprengingin sem varð í byrjun mánaðar gerði illt ástand aðeins verra. Þá hafa mikil mótmæli staðið yfir í Líbanon frá því í október í fyrra en þau hafa aukist í kjölfar sprengingarinnar, sem er sögð vera til marks um opinbera vanrækslu og sinnuleysi yfirvalda.

Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanon, sleit ríkisstjórninni og sagði af sér embætti í kjölfar sprengingarinnar. Þrír ráðherrar höfðu einnig sagt af sér en Diab sagðist ætla að berjast með fólkinu fyrir breytingum á stjórnarfari landsins. Spilling í Líbanon væri „stærri en ríkið“.

Diab tók við embætti forsætisráðherra af Saad Hariri í desember á síðasta ári. Hann var prófessor áður en hann tók starfið að sér en Hariri sagði af sér vegna fyrrnefndra mótmæla í landinu. Ráðandi fylkingar í Líbanon deildu um margra mánaða skeið áður en Diab var skipaður í embætti en ríkisstjórn hans var studd af Hezbollah samtökunum.

Stuðningsyfirlýsing forsætisráðherrana er sögð gríðarlega mikilvæg og gefur til kynna mikinn stuðning súnní-múslima á þinginu, en skipting stjórnkerfisins þar í landi gerir ráð fyrir því að forsætisráðherran sé alltaf súnní-múslimi. Forsetinn skal alltaf vera kristinnar trúar og forseti þingsins shía-múslimi.


Tengdar fréttir

Líbanski herinn fær aukin völd

Líbanska þingið hefur framlengt neyðarástandið landinu sem felur meðal annars í sér að herinn fær nú aukin völd.

Varaðir við hættunni í síðasta mánuði

Forsætisráðherra og forseti Líbanon voru varaðir við því í síðasta mánuði að 2.750 tonn af ammóníum nítrati, sem finna mátti í vöruskemmu við höfn Beirút, væri ógn við borgina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×