Sport

Usain Bolt með kórónuveiruna eftir gleðskap sem Raheem Sterling mætti í

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt vann átta Ólympíugull á sínum ferli. Hér bítur hann í eitt þeirra.
Usain Bolt vann átta Ólympíugull á sínum ferli. Hér bítur hann í eitt þeirra. Getty/Patrick Smith

Fljótasti maður sögunnar slapp ekki undan kóróuveirunni. Áttfaldi Ólympíumeistarinn Usain Bolt er smitaður af kórónuveirunni en Jamaíkamaðurinn hafði farið í sjálfskipaða sóttkví áður en hann fékk niðurstöðu úr prófinu.

Usain Bolt er einn öflugast íþróttamaður sögunnar enda var hann fljótasti maður heims í langan tíma og á bæði heimsmetið í 100 og 200 metra hlaupi.

Hinn 34 ára gamli Usain Bolt er hættur að keppa fyrir þremur árum en það lítur út fyrir að afmælisveisla hans á dögunum hafi verið ástæðan fyrir því að hann er smitaður.

Bolt tilkynnti það á samfélagsmiðlum að hann ætlaði að halda sig heima á meðan hann biði eftir niðurstöðum úr prófinu sem síðan reyndist vera jákvætt. „Til öryggis þá ætla ég bara að taka því rólega,“ sagði Usain Bolt en hann var með engin einkenni.

BBC segir frá því að Raheem Sterling, leikmaður Manchester City og enska landsliðsins, hafi verið gestur í þessu afmæli Usain Bolt.

Næst á dagskrá hjá Raheem Sterling ætti einmitt að vera landsleikur á móti Íslandi í Laugardalnum. Leikurinn fer fram 5. september á Laugardalsvellinum.

„Ég fór í prófið á laugardaginn útaf vinnunni minni. Ég er að reyna að vera ábyrgur og verð því heima ásamt vinum mínum,“ sagði Usain Bolt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×