Viðskipti innlent

Björn Ingi þarf að greiða þrota­búi Pressunnar 80 milljónir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björn Ingi Hrafnsson, fjölmiðlamaður.
Björn Ingi Hrafnsson, fjölmiðlamaður.

Fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson hefur verið dæmdur til að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. áttatíu milljónir króna. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Vesturlands.Dómurinn féllst á kröfur Pressunnar ehf. um að veðsetningum á eignum félagsins, sem gerðar voru með lánasamningi milli Pressunnar ehf. og Björns Inga auk tryggingabréfs, yrði rift.

Um var að ræða allsherjarveð í Pressunni, auk vörumerkjanna og vefsíðanna Eyjan.is, Bleikt.is, 433.is, sem og útgáfurétt Pressunnar. Þá var þess krafist að yfirtöku Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., sem tók yfir miðla Pressunnar skömmu áður en félagið fór í gjaldþrot árið 2017, á 80 milljóna skuld Björns Inga við Pressuna yrði rift. Dómurinn féllst einnig á það.

Pressan ehf. rak útgáfustarfsemi á áðurnefndum vefsíðum og átti hlut í dagblaðinu DV. Björn Ingi var einn stofnenda Pressunnar ehf. og stjórnarformaður félagsins frá stofnun þess og þar til í desember 2017.

Greiðslan fyrir Eyjuna farið beint til Pressunnar

Lögmenn Pressunnar ehf. lögðu áherslu á að bókhald félagsins bæri þess engin merki að félagið hefði skuldað Birni Inga 80 milljónir króna. Þá beri færslur á bankareikningum félagsins þess heldur ekki merki að Björn Ingi hefði lánað félaginu umrædda fjárhæð. Gögnin styðji því ekki fullyrðingar Björns Inga um að lánið hefði verið veitt.

Björn Ingi vísaði m.a. til þess að það hefði blasað við að Pressan ehf. yrði gjaldþrota í byrjun september 2017, yrði ekkert gert. Sjálfur hefði hann í reynd fjármagnað félagið árum saman með lánum og persónulegum ábyrgðum. Hann hefði til að mynda látið mánaðarlega greiðslu fyrir umsjón með sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2, sem nam 1,6 milljónum króna, renna til Pressunnar ehf. sem lán um þriggja ára skeið.

Hann hefði svo þann 10. júní 2017 lánað Pressunni ehf. og dótturfélögum 80 milljónir króna. Pressunni ehf. hefði borið að endurgreiða lánið 12 mánuðum síðar.

Um var að ræða allsherjarveð í Pressunni, auk vörumerkjanna og vefsíðanna Eyjan.is, Bleikt.is, 433.is.Vísir/Vilhelm

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að reikningsyfirlit styðji ekki að Björn Ingi hafi lánað Pressunni ehf. umrædda upphæð. Gildi þar einu hvort miðað sé við að útgreiðsla lánsins hafi strax farið fram eða hvort um einhvers konar lánalínu hafi verið að ræða, líkt og Björn Ingi byggði á.

Dómurinn komst loks að þeirri niðurstöðu að yfirtöku Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. á skuld Pressunnar ehf. við Björn Inga yrði rift og Birni Inga gert að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. umræddar 80 milljónir króna.

Dómurinn féllst einnig á kröfu þrotabúsins um að umræddum veðsetningum verði rift. Birni Inga var jafnframt gert að greiða málskostnað að upphæð 1,6 milljónir króna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×