Körfubolti

Meira en 29 ár síðan 2,16 metra maður skoraði síðast 20 stig fyrir íslenska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason var stórkostlegur í Höllinni í gærkvöldi. Hann og Pavel Ermolinskij voru saman með 33 stig, 27 fráköst og 12 stoðsendingar.
Tryggvi Snær Hlinason var stórkostlegur í Höllinni í gærkvöldi. Hann og Pavel Ermolinskij voru saman með 33 stig, 27 fráköst og 12 stoðsendingar. Vísir/Bára

Tryggvi Snær Hlinason átti sinn besta landsleik á ferlinum í gærkvöldi þegar hann fór fyrir sigri Íslands á Slóvakíu í Laugardalshöllinni.

Tryggvi Snær Hlinason setti nýtt persónulegt met með því að skora 26 stig í leiknum en auk þess var hann með 17 fráköst og 8 varin skot.

Gamla persónulega met Tryggva var síðan í leik á móti Litháen í ágúst 2017 en hann skoraði þá 19 stig í leik þar sem hann glímdi við NBA-stjörnuna Jonas Valanciunas.

Tryggvi Snær Hlinason er 2,16 metrar á hæð og því einn hávaxnasti leikmaðurinn sem hefur spilað fyrir íslenska landsliðið.

Það þarf að fara allt til 27. desember 1990 til að finna síðasta landsleik þar sem 2,16 metra maður skoraði síðast tuttugu stig fyrir íslenska landsliðið í körfubolta.

Pétur Karl Guðmundsson skoraði þá 20 stig í vináttulandsleik á móti Dönum í Stykkishólmi. Pétur var þá kominn aftur heim úr atvinnumennsku og orðinn leikmaður Tindastóls.

Tryggvi skoraði stigin sín í gær aftur á móti í keppnisleik en því hefur 2,16 metra maður ekki náð síðan Pétur skoraði 25 stig á móti Kýpur á Promotion Cup í Wales fyrr í sama desembermánuði árið 1990.

Pétur er áfram síðasti 2,16 metra maðurinn til að skora yfir þrjátíu stig í landsleik en hann skoraði síðast yfir 30 stig þegar hann var með 33 stig á móti Eistlandi í vináttulandsleik í lok desember 1989.

Pétur Karl Guðmundsson er 2,18 metrar á hæð og spilaði á sínum tíma 53 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann er líka eini Íslendingurinn sem hefur spilað leik í deildarkeppni og úrslitakeppni NBA-deildarinnar.

Ragnar Ágúst Nathanaelsson (2,18 metrar) og Egill Jónasson (2,17 metrar) hafa spilað með íslenska landsliðinu síðan þá en hvorugur hefur náð að skora svona mikið í landsleik.


Tengdar fréttir

Pavel: Það voru allir til fyrirmyndar

Íslendingar unnu góðan sigur á Slóvökum í undankeppni HM í körfubolta 2023 í kvöld, 83-74. Ísland leikur í forkeppni að sjálfri undankeppninni og er í riðli með Slóvakíu, Lúxemborg og Kósóvó.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.