Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Slóvakía 83-74 | Tryggvi stórkostlegur í nauðsynlegum sigri

Ísak Hallmundarson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson er fyrirliði íslenska landsliðsins.
Hörður Axel Vilhjálmsson er fyrirliði íslenska landsliðsins. Vísir/Bára

Íslenska körfuboltalandsliðið vann góðan sigur á Slóvakíu í Laugardalshöllinni í kvöld, 83-74.Leikurinn er hluti af undankeppni HM í körfubolta 2023, nánar tiltekið undanriðli fyrir undakeppnina sjálfa, en Ísland er í riðli með Slóvakíu, Kósovó og Lúxemborg og þarf að enda í einu af tveimur efstu sætunum til að komast áfram í undankeppnina.Slóvakar settu niður tvo þrista í byrjun leiks og komust í 2-6 en Íslendingar voru fljótir að svara og þriggja stiga karfa frá Sigtryggi Arnari kom Íslandi í 7-6.Vörn Íslands var virkilega sterk í leiknum og náðu strákarnir nokkrum sinnum að láta skotklukkuna renna út hjá Slóvökum í fyrsta leikhlutanum.Tryggvi Hlinason átti stórkostlegan leik. Strax í fyrsta leikhluta varði hann 4 skot og var auk þess með 7 stig. Hann skoraði síðustu körfu leikhlutans og kom Íslandi í 17-14.Slóvakar skoruðu fyrstu 4 stig annars leikhluta og komust aftur yfir en Ólafur Ólafsson setti niður þriggja stiga skot og kom Íslandi aftur í forystu í 22-20.Sigtryggur Arnar lék á eldi í fyrri hálfleik og setti niður tvo þrista á næstu tveimur mínútum og kom Íslandi í 30-24.Tryggvi Hlinason hélt áfram að heilla íslenska áhorfendur og átti magnaða troðslu sem kom Íslandi 8 stigum yfir. Hálfleikstölur urðu 43-34 fyrir strákunum okkar, Tryggvi var þegar kominn með 14 stig, 10 fráköst og 5 varin skot í hálfleik.Seinni hálfleikur byrjaði þannig að Tryggvi varði enn eitt skotið og Sigtryggur Arnar setti niður enn einn þristinn og kom Íslandi 12 stigum yfir. Eftir það komu 9 stig í röð frá Slóvakíu en þá settu strákarnir í annan gír.Kári Jónsson setti niður þrist og auðvitað kom troðsla frá Trygga sem kom Íslandi 8 stigum yfir. Kári fór á kostum og setti niður næstu 5 stig fyrir Ísland, staðan þá orðin 58-47.Ísland fór inn í síðasta fjórðung leiksins með 9 stiga forskot, 63-54. Tryggvi hélt áfram að raða inn stigum í byrjun 4. leikhluta og kom Íslandi 14 stigum yfir, 70-56.Leikurinn róaðist aðeins niður næstu mínútur og Ísland hélt þægilegri 15 stiga forystu þar til um 2 mínútur voru eftir af leiknum, en þá fóru liðin að skiptast á að hitta þristum.Staðan var 79-69 þegar um 40 sekúndur voru eftir en þá setti Ægir Þór niður tveggja stiga skot og kom Íslandi 12 stigum yfir. Slóvakar náðu aðeins að klóra í bakkann og lokatölur urðu 83-74, frábær sigur Íslands staðreynd.

Af hverju vann Ísland?

Íslenska landsliðið fékk gott framlag frá öllum leikmönnum sem spiluðu. Þeir spiluðu frábæra vörn og fengu líka stig af bekknum sem þeir þurftu. Þá átti Tryggvi einn besta landsleik sinn frá upphafi og var sú frammistaða klárlega stór hluti af sigrinum.

Hverjir stóðu upp úr?

Auðvitað Tryggvi með 26 stig, 17 fráköst, 8 varin skot og 41 framlagspunkt! Auk hans átti Sigtryggur góðan leik með 16 stig og Pavel með 7 stig, 10 fráköst og 11 stoðsendingar. Þá átti Kári Jóns frábæra innkomu af bekknum með 15 stig.

Hvað gerist næst?

Næsti landsleikur verður 26. nóvember á móti Lúxemborg í Laugardalshöll. Ísland verður að vinna þann leik. 

Pavel: Það voru allir til fyrirmyndar

,,Það var kannski fyrst og fremst frábær varnarleikur, við vorum mjög vel undirbúnir og svo voru líka einstakir leikmenn sem stóðu sig mjög vel. Tryggvi var auðvitað ótrúlegur bæði í vörn og sókn og Arnar fyllti upp í það skarð sem vantaði stigalega og hann og Kári skoruðu fullt af stigum og þetta var bara eftir bókinni,‘‘ sagði Pavel Ermolinskij við Vísi eftir leik um hvað það hefði verið sem skilaði sigrinum.Það var komið meira en hálft ár síðan Pavel spilaði síðast landsleik. Hann segir upplifunina alltaf jafna skemmtilega:,,Þetta er náttúrulega geggjað, einstök tilfinning. Það er alltaf svo þægileg og góð stemmning og alltaf svo gaman að mæta og sjá turnanna og risanna í hinum liðunum og öll nöfnin og allt þetta. Eini sénsinn er að þjappa þér saman við liðsfélaganna og það er alltaf svo æðisleg tilfinning að vera hluti af svona hóp sem er eiginlega alltaf í einhverri svona Davíð á móti Golíat stemmningu, maður upplifir þetta ekki annarsstaðar, þetta er alltaf sérstakt.‘‘Pavel var sáttur með framlag allra í liðinu:,,Í fyrsta lagi skiluðu allir sínu hlutverki hvar sem það er, það er alltaf mismunandi, og sumir jafnvel skiluðu meira en var kallað eftir kannski, Tommi kemur inn á og hirðir einhver 40 sóknarfráköst, Óli spilar frábæra vörn og Kári setur stig. Við reiðum mikið á Tryggva og við erum ekki að biðja hann um að spila alltaf eins og hann gerði í kvöld, en hann gerði það og við fögnum því. Það voru allir bara til fyrirmyndar,‘‘ sagði Pavel sáttur.Spurður út í möguleika Íslands á að komast áfram upp úr riðlinum sagði Pavel það velta á stemmningunni og andanum í liðinu:,,Við munum eiga slæma daga líka og þá munum við tapa vegna þess að við höfum ekki þessa líkamlegu getu sem þessi lið hafa. Á meðan þessi andi sem er búinn að vera hérna síðustu ár, á meðan það eru nýjir leikmenn að koma inn og geta tekið þátt í því og fundið sér hlutverk körfuboltalega og haldið þessari stemmningu og anda gangandi þá heldur maður áfram og við erum alltaf í séns.‘‘ 

Craig: Þurfum að verja heimavöllinn

,,Þrátt fyrir fúlt tap í síðasta leik spiluðum við frekar vel. Við þurfum að gera allt sem við getum til að verja heimavöllinn, vinna heimaleiki. Það var það sem við gerðum í kvöld og þetta var góður sigur gegn mjög góðu liði. Margir leikmenn stigu upp og skiluðu góðu framlagi á réttum tíma,‘‘ sagði Craig Pedersen þjálfari íslenska liðsins.Hann var sáttur með frammistöðu allra sinna leikmanna og þakkaði Tryggva sérstaklega fyrir frábæran leik:,,Orkustigið var gott yfir allan leikinn, við fengum góða frammistöðu frá öllum og Tryggvi átti frábæran leik í dag, mögulega sinn besta landsleik og það skipti sköpum.‘‘

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.