Fótbolti

"Kærastan óskaði mér til hamingju og ég kunni að meta það“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Fannar Baldursson hjálpaði Bologna liðinu að ná í stig.
Andri Fannar Baldursson hjálpaði Bologna liðinu að ná í stig. Skjámynd/Youtube-síða Bologna Fc 1909

Íslenski táningurinn Andri Fannar Baldursson er búinn að vinna sig upp í aðallið ítalska A-deildarliðsins Bologna og fékk sínar fyrstu mínútur með liðinu um síðustu helgi.

Andri Fannar Baldursson hafði einu sinni áður verið í hóp í vetur en núna kom hann inn á völlinn þegar rétt rúmur hálftími var eftir og Bologna liðið einu marki undir.

Sinisa Mihajlovic, knattspyrnustjóri Bologna, hefur mikla reynslu bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann sér eitthvað í hinum átján ára gamla Andra Fannari og henti honum í djúpu laugina með góðum árangri.

Ítalskir fjölmiðlar hrósuðu Andra Fannari fyrir frammistöðu sína en eftir að hann kom inn á völlinn en Bologna tókst að skora í lok leiksins og tryggja sér jafntefli.

Andri Fannar kom inn á fyrir Danann Andreas Skov Olsen en sá er aðeins tvítugur.

„Það kom mér fyrst á óvart þegar ég fékk kallið en ég var klár í þetta og spenntur fyrir að fá tækifærið. Ég er ótrúlega ánægður með þetta. Ég ætla að halda áfram að bæta mig sem leikmaður og gera enn betur. Ég er hungraður í að fá fleiri tækifæri," sagði Andri Fannar í viðtali á heimasíðu Bologna.


Andri Fannar fagnaði líka viðbrögðunum úr sínum innsta hring en þar var mikil gleði með að sjá hann stíga þetta risastóra skref á sínum ferli.

„Kærastan mín, fjölskyldan, vinir og margir aðrir sendu mér skilaboð og óskuðu mér til hamingju og ég kunni að meta það. Þau voru virkilega ánægð með mig og sögðu mér að ég hefði staðið mig vel," sagði Andri Fannar sem er uppalinn hjá Breiðabliki en kom út til Bologna fyrir rúmu ári. Blikar lánuðu hans fyrst til ítalska félagsins í janúar en seldur hann svo til Bologan síðasta sumar.


„Ég hef alltaf verið með boltann við fæturna síðan ég var lítill strákur og foreldrar mínir sendu mig á fótboltaæfingar þegar ég var fimm ára," sagði Andri Fannar í viðtalinu og hann kann mjög vel við sig í borginni.

„Mér líst vel á borgina og félagið. Það kom mér á óvart og ég elska þetta. Það hafa allir tekið vel á móti mér hérna," sagði Andri en það er hægt að sjá hann í viðtalinu hér fyrir neðan. Andri Fannar á enn eftir að ná tökum á ítölskunni og viðtalið fór því fram á ensku. Hann endaði samt á því að senda kveðju á íslensku:

„Takk kærlega fyrir stuðninginn, ég kann að meta þetta,“ sagði Andri Fannar en það má sjá allt viðtalið hér fyrir neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.