Sport

Beinið brotnað ef ég hefði haldið áfram | Guðbjörg stefnir hátt í sumar

Sindri Sverrisson skrifar
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sló Íslandsmetin í 100 og 200 metra hlaupi í fyrra og vill gera það sama í ár.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sló Íslandsmetin í 100 og 200 metra hlaupi í fyrra og vill gera það sama í ár. mynd/frí

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Íslandsmethafi í 100 og 200 metra hlaupi, ætlar ekki að láta ristarmeiðsli stöðva sig í að ná markmiðum sínum á hlaupabrautinni í sumar.Guðbjörg Jóna er nú með myndarlega spelku utan um annan fótinn, eftir að hafa verið á hækjum síðustu tvær vikur, en hún losnar við umbúðirnar eftir mánuð. Meiðsli hennar stafa af beinbjúg í ristinni sem hún varð að bregðast við í kjölfar þess að hún vann til þrennra gullverðlauna á Reykjavíkurleikunum í byrjun þessa mánaðar.„Eftir Reykjavíkurleikana var ég komin með þokkalegan verk í ristina. Þá kíkti ég til sjúkraþjálfara sem sendi mig beint í myndatöku, og þá kom í ljós að ég er með beinbjúg í ristinni. Ég er búin að vera á hækjum í tvær vikur og er núna í svona „walking boot“ í fjórar. Þetta er alls ekki langur tími og ég er bara að hlaupa í sundi og gera þrekæfingar á meðan. Ég kem miklu sterkari tilbaka fyrir vikið held ég. Ég verð bara að passa mig að byrja varlega og síðan má ég hlaupa eitthvað í æfingabúðunum um páskana,“ segir Guðbjörg Jóna sem fer með liði ÍR til Spánar um páskana. Hún missti af Meistaramóti Íslands um síðustu helgi vegna meiðslanna.

Hún segir meiðslin í raun ekki hafa truflað sig á Reykjavíkurleikunum: „Þetta var bara allt í lagi, ég fann ekkert fyrir þessu nema um kvöldið og daginn eftir. Ég finn alls engan sársauka núna. Ég ákvað að segja stopp og taka ekki neina áhættu. Ef ég hefði haldið áfram þá hefði beinið líklegast brotnað og þá hefði sumarið verið farið,“ segir ÍR-ingurinn og bætir við:„Ég stefni ennþá á að bæta metin mín enn frekar í 100 og 200 metra hlaupi í sumar. Síðan er líka HM U20, þar sem ég er komin inn, og EM fullorðinna sem ég stefni á að ná lágmarki fyrir.“

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.