Sport

Guðbjörg Jóna jafnaði sitt eigið met og Kristján Viggó bætti 23 ára gamalt met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hljóp á 24,05 sekúndum og jafnaði sitt met.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hljóp á 24,05 sekúndum og jafnaði sitt met. Vísir/Sigurjón

ÍR-ingurinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir jafnaði eigin aldursflokkamet í 200 metra hlaupi kvenna á Stórmóti ÍR í dag þegar hún hljóp á 24,05 sekúndum.

Guðbjörg Jóna vann 200 metra hlaupið en önnur var FH-ingurinn Þórdís Eva Steinsdóttir á 25,02 sekúndum.

Guðbjörg Jóna jafnaði sitt eigið met því hún hefur nú hlaupið tvisvar á ferlinum á 24,05 sekúndum.

Þetta er Íslandsmet í flokki 20 til 22 ára innanhúss en Guðbjörg Jóna setti metið fyrst 27. janúar í fyrra.

Íslandsmet fullorðinna kvenna á Silja Úlfarsdóttir síðan hún hljóp á 23,79 sekúndum á móti í Bandaríkjunum 12. mars 2004.

Ármenningurinn Kristján Viggó Sigfinnsson bætti met Einars Karls Hjartarsonar í flokki sextán til sautján ára þegar hann stökk 2,13 metra. Einar Karl var búinn að eiga metið í flokki sextán til sautján ára síðan að hann stökk 2,12 metra í febrúarmánuði árið 1997.

Kristján Viggó er fæddur árið 2003 eða sex árum eftir að Einar Karl setti metið.

Kristján Viggó átti líka góðar tilraunir við 2,15 metra og þarna er greinilega mikið efni á ferðinni.

Íslandsmetið í flokknum fyrir ofan, 18 til 19 ára, er enn í eigu Einars Karls sem stökk 2,20 árið 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×