Fótbolti

Eyddi meiri pening í barnapíur en hún fékk í laun fyrir að spila í bandarísku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sydney Leroux með strákinn sem hún átti fyrir.
Sydney Leroux með strákinn sem hún átti fyrir. Mynd/Instagram/sydneyleroux

Fyrrum heimsmeistari með bandaríska kvennalandsliðinu í fótbolta kallar eftir því að mæður fá meiri stuðning í bandarísku kvennadeildinni í fótbolta.

Sydney Leroux var ekki með bandaríska landsliðinu þegar liðið vann heimsmeistaratitilinn í fyrrasumar þar sem hún var í barneignarfríi. Hún eignaðist dóttur í júní 2019.

Þremur mánuðum eftir fæðinguna var Sydney Leroux mætt aftur í slaginn til að spila með liði sínu Orlando Pride í NWSL deildinni.

„Alltof oft sjáum við að konur þurfa að velja á milli íþróttaferilsins og móðurhlutverksins,“ skrifaði Sydney Leroux inn á Twitter.


Hámarkslaunin í NWSL deildinni eru 38.655 Bandaríkjadalir eða rétt tæpar fimm milljónir. Lágmarkslaunin eru aftur á móti aðeins 15462 dalir eða tæpar tvær milljónir í íslenskum krónum. Lykilatriðið er samt að það er ekkert fæðingarorlof í boði fyrir þá leikmenn sem verða ófrískar.

Leikmenn sem spila með bandaríska landsliðinu fá reyndar hærri laun og geta fengið 77.310 dali eða 9,9 milljónir á ári.

Sydney Leroux hefur spilað 77 leiki með bandaríska landsliðinu og varð heimsmeistari árið 2015 og Ólympíumeistari árið 2012.

„Ég vil taka það fram að mín staða er öðruvísi. Þess vegna er það svo mikilvægt fyrir mig að berjast fyrir mæður og konur í NWSL deildinni sem eiga börn eða vilja eignast börn. Ég vil að þær geti áfram elt fótboltadrauminn sinn,“ skrifaði Sydney Leroux í viðtali við Forbes.


Hún tjáði blaðamanni Forbes jafnframt það að hún sjálf hefði á síðasta ári eytt meiri pening í barnapíur en hún fékk í laun fyrir að spila í bandarísku deildinni

„Það væri mjög sorglegt að missa hæfileikaríkar konur úr boltanum af því að þeim finnst að þær geti ekki verið í báðum hlutverkunum,“ sagði Leroux.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.