Innlent

Milli­landa­flug á á­ætlun seinni partinn

Atli Ísleifsson skrifar
Upplýsingafulltrúi Isavia segir ljóst að óveðrið hafi áhrif á allar flugferðir á landinu í dag.
Upplýsingafulltrúi Isavia segir ljóst að óveðrið hafi áhrif á allar flugferðir á landinu í dag. vísir/vilhelm

Búið er að aflýsa tugum flugferða til og frá landinu vegna óveðursins sem nú gengur yfir. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er þó allt flug á áætlun seinni partinn í dag þegar reiknað er með að veður hafi gengið niður.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að flugferðum Icelandair frá Bandaríkjunum og Kanada á leið til landsins hafi verið seinkað í dag og sé gert ráð fyrir að sjö vélar lendi á Keflavíkurflugvelli um klukkan 15 í dag.

Aflýsti 22 flugferðum

Icelandair aflýsti á miðvikudaginn 22 brottförum til og frá Evrópu sem fyrirhugaðar voru í dag og hafði það áhrif á um átta þúsund farþega.

Ásdís Ýr segir að til að bregðast við því hafi flugferðum verið fjölgað í gær og svo hafi verið haft samband við farþega og reynt að leysa úr málum.

Air Iceland Connect hefur fellt niður ferðir í dag.Vísir/Sigurjón

Ekkert innanlandsflug

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, segir að öllu innanlandsflugi félagsins hafi verið aflýst í dag. Hann segir að þó að betur eigi eftir að fara yfir málin geri hann ráð fyrir að allt flug verði á áætlun á morgun. Er ljóst að raskanir dagsins í dag hafi haft áhrif á nokkur hundruð viðskiptavini, en alls áttu milli átta og níu hundruð farþegar bókað flug hjá Air Iceland Connect í dag.

Sjá einnig: Óveðursvaktin: Illviðri og foktjón víða um land

Flugfélagið Ernir hefur sömuleiðis aflýst sínum ferðum í dag.

Vindstyrkur vel yfir viðmiðunarmörk

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að ljóst megi vera að óveðrið hafi áhrif á allar flugferðir á landinu í dag.

„Vindhraðinn hefur farið upp í 75 hnúta í verstu hviðum, sem er um 40 metrar á sekúndu. Til viðmiðunar má nefna að það sé 25 hnútum yfir viðmiðunarmörk þegar kemur að notkun landganga.

En við hvetjum fólk til að fylgjast með á vefsíðunni okkar, en það er svo flugfélaganna að ákveða út frá aðstæðum hvenær flogið er,“ segir Guðjón.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×