Handbolti

Alfreð Gíslason nýr landsliðsþjálfari Þýskalands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslson fagnar titli með Kiel
Alfreð Gíslson fagnar titli með Kiel Getty/Martin Rose

Alfreð Gíslson var í dag tilkynntur sem nýr þjálfari þýska landsliðsins í handbolta en hann mun taka við starfinu 9. mars næstkomandi.

Fyrsti landsleikur Þjóðverjar undir stjórn Alfreðs verður „Íslendingaslagur“ en Þjóðverjar mæta þá Hollandi 13. mars. Erlingur Richardsson er þjálfari Hollendinga.

Alfreð Gíslason hætti með Kiel síðasta vor eftir ellefu ára starf. Hann hafði þjálfað í þýsku deildinni samfellt frá árinu 1997.



Fyrsta stóra verkefni Alfreðs með þýska landsliðið verður að koma þýska landsliðinu á Ólympíuleikana í Tókýó. Þýskaland er í riðli með Svíþjóð, Slóveníu og Alsír í umspilinu og tvær þjóðir komast áfram.

Umspilið fer fram frá 17. til 19. apríl og ferill riðill Þjóðverja fram í Berlín.

Þetta verður annað landsliðsþjálfarastarf Alfreðs á þjálfaraferlinum en hann stýrði íslenska landsliðinu frá 2006 til 2008.

Samningur Alfreðs er til tveggja ára eða fram yfir Evrópumótið í Ungverjalandi og Slóvakíu í ársbyrjun 2022.

Alfreð er einn sigursælasti þjálfari í sögu þýsku deildarinnar. Hann vann þýska titilinn sjö sinnum með Kiel (6) og Magdeburg (1) og þýsku bikarkeppnina sex sinnum þar af á síðasta tímabili sínu með Kiel.

Alfreð vann einnig Meistaradeildina þrisvar sinnum, árið 2002 með Magdeburg og árin 2010 og 2012 með Kiel.

Alfreð Gíslason er annar Íslendingurinn sem þjálfar þýska landsliðið því Dagur Sigurðsson þjálfaði það frá 15. september 2014 til 31. janúar 2017. Dagur gerði Þjóðverja að Evrópumeisturum árið 2016 og liðið vann brons á Ólympíuleikunum sama ár.

Alfreð tekur við starfi Christian Prokop sem hefur farið með þýska landsliðið á síðustu þrjú stórmót. Þjóðverjar lentu undir hans stjórn í 9. sæti á EM 2018, í 4. sæti á HM 2019 og nú síðast í 5. sæti á EM 2020 eftir sigur á Portúgal í leiknum um fimmta sætið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×