Enski boltinn

Fyrrum leikmaður Liverpool hraunar yfir Paul Pogba | Myndband

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eru vandræði Manchester United virkilega Paul Pogba að kenna?
Eru vandræði Manchester United virkilega Paul Pogba að kenna? Vísir/Getty

Jason McAteer, fyrrum leikmaður Liverpool og írska landsliðsins, virðist hafa fundið ástæðu fyrir slæmu gengi Manchester United á leiktíðinni. Þetta er allt Paul Pogba, þeim Paul Pogba sem varð heimsmeistari með Frakklandi sumarið 2018 og var margfaldur Ítalíumeistari með Juventus áður en hann gekk til liðs við Manchester United vorið 2016.

McAteer, sem starfar í dag hjá beIn Sports sem er staðsett í Katar, telur að Ole Gunnar Solskjær sé ekki rétti maðurinn í starfið. McAteer var að störfum hjá beIN Sports yfir leik Manchester United og Burnley á Old Trafford í gærkvöld þar sem heimamenn máttu þola óvænt 0-2 tap.

Eftir leik lét þessi fyrrum leikmaður Bolton Wanderers, Liverpool, Blackburn Rovers, Sunderland og Tranmere Rovers gamminn geisa.

Ég skil ekki Paul Pogba, hann passar ekki inn í Manchester United. Það er ástæða fyrir því að Sir Alex Ferguson lét hann fara á sínum tíma. Af hverju kaupa þeir hann til baka? Fyrir mína parta veldur hann usla í búningsklefanum. Hann hefur of mikil áhrif á yngri leikmenn liðsins og það er ekki það sem þú vilt, sagði McAteer meðal annars áður en hann hélt áfram.

Þú vilt James Milner, Jordan Henderson og Adam Lallana í búningsklefanum þínum. Leikmenn sem segja þér hvernig þú átt að lifa lífinu og vinna titla.

Eftir að ræða Liverpool enn frekar þá segir McAteer að United skorti leiðtoga, þeir séu ekki með neinn að stýra skútunni og að Ole Gunnar Solskjær sé ekki rétti maðurinn til þess.

Vert er að taka fram að Paul Pogba hefur unnið fleiri titla en James Milner, Jordan Henderson og Adam Lallana til samans þrátt fyrir að vera yngri en þeir allir.

Þá var Paul Pogba hvergi sjáanlegur er Man Utd beið afhroð gegn Burnley í kvöld þar sem leikmaðurinn hefur verið meiddur á ökkla nær allt tímabilið og þurfti að fara í aðgerð eftir að læknalið félagsins gaf honum grænt ljós á að spila gegn Rochdale í Deildarbikarnum fyrr á leiktíðinni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.