Sport

Íþróttafólkið á ÓL í Tókýó mun sofa á papparúmum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Papparúmin sem verða í boði fyrir íþróttafólkið á ÓL í Tókýó í sumar.
Papparúmin sem verða í boði fyrir íþróttafólkið á ÓL í Tókýó í sumar. Getty/Kyodo New

Eitt af því sem verður að vera í lagi nóttina fyrir mikilvæga íþróttakeppni er gott rúm. Þess vegna vekur það talsverða athygli að rúm íþróttafólksins á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar verða gerð úr pappa.

„Þessi rúm þola upp í 200 kíló,“ sagði Takashi Kitajima, framkvæmdastjóri Ólympíuþorpsins þar sem íþróttafólkið mun gista á meðan leikunum stendur. Það er afar ólíklegt að einhver íþróttafólksins sé þyngri en það.

„Þessi rúm eru sterkari en rúm úr tré,“ bætti Kitajima við í viðtali við blaðamann New York Daily News.


Það mun þó ekki ganga upp að fagna Ólympíuverðlaunum með því að stökkva upp í rúm.

„Auðvitað brotna þessi rúm eins og trérúm ef fólk er að hoppa á þeim,“ sagði Takashi Kitajima.

Rúmin verða síðan endurunnin eftir leikana og unnin úr þeim endurunninn pappír. Dýnan sjálf er auðvitað ekki úr pappa en hún verður líka endurunnin í alls kyns plasthluti.

Það verða átján þúsund papparúm í Ólympíuþorpinu en það er byggt upp af 21 íbúðaturnum. Þetta er í fyrsta sinn sem rúm íþróttafólks á Ólympíuleikunum verða endurnýjanleg eftir leikanna.

Forráðamenn Ólympíuleikanna kynntu nýju rúmin í gær en sjálft Ólympíuþorpið verður ekki tilbúið fyrr en í júní. Ólympíuleikarnir hefjast 24. júlí en rúmin verða einnig notuð á Ólympíumóti fatlaðra sem hefst 25. ágúst.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.