Sport

Vikings og Ravens úr leik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lamar Jackson og félagar úr leik.
Lamar Jackson og félagar úr leik. vísir/getty

Minnesota Vikings og Baltimore Ravens eru úr leik eftir fyrri hluta 8-liða úrslitanna í NFL deildinni þar sem leikið var í gærkvöldi en San Francisco 49ers og Tennessee Titans eru komin áfram í undanúrslit.

Fyrri leikurinn fór fram í San Francisco þar sem Íslandsvinirnir í Minnesota Vikings áttu fá svör við heimamönnum í 49ers en leiknum lauk 27-10 eftir að staðan í leikhléi var 14-10 fyrir 49ers. 

Tevin Coleman var öflugur hjá 49ers og skilaði tveimur snertimörkum en í kvöld kemur í ljós hvort 49ers mæti Seattle Seahawks eða Green Bay Packers í undanúrslitum.

Í síðari leik gærkvöldsins héldu Tennessee Titans uppteknum hætti eftir að hafa fleygt Tom Brady og félögum í New England Patriots út í Wild Card helginni um síðustu helgi og hreinlega gengu frá Baltimore Ravens.

Þar með batt Titans endi á ótrúlegt tímabil Lamar Jackson og félaga í Ravens sem töpuðu aðeins tveimur leikjum í deildarkeppninni.

Titans var 14-6 yfir í hálfleik og komst svo í 28-6 í þriðja leikhluta. Þann bil náðu Ravens ekki að brúa og lauk leiknum með öruggum sigri Titans, 28-12.

Í kvöld kemur í ljós hvort þeir mæti Kansas City Chiefs eða Houston Texans í undanúrslitum.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.