Innlent

Bætur í Guð­mundar- og Geir­finns­málum greiddar í þessum mánuði

Atli Ísleifsson skrifar
Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna í Hæstarétti í fyrra.
Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna í Hæstarétti í fyrra. vísir/vilhelm

Ríkið mun greiða alls 759 milljónir króna í miskabætur til málsaðila og afkomenda í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmála síðar í þessum mánuði. Er það gert á grundvelli laga samþykkt voru á Alþingi í byrjun desember.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun. Þeir aðilar sem eiga að fá miskagreiðslur hafa frest til 10. janúar til að gera athugasemdir við bótaupphæðirnar, en haft var samband við þá fljótlega eftir að lögin voru samþykkt.

Umrædd lög voru samþykkt í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar í málinu en alls verða miskagreiðslur greiddar til þriggja málsaðila sem enn eru á lífi og barna hinna tveggja.

Eftir að frestur rennur út verður greitt út á grundvelli stjórnvaldsákvörðunar, að því gefnu að athugasemdir kalli ekki á endurskoðun. Eru greiðslurnar á bilinu 15 til 224 milljónir króna.

Í lögunum kemur fram að greiðsla umræddra bóta komi ekki í veg fyrir að málsaðilar eða aðstandendur þeirra geti höfði sérstakt bótamál fyrir dómstólum, en enn sem komið er hefur einungis Guðjón Skarphéðinsson stefnt ríkinu þar sem frekari bóta er krafist. Guðjón hefur krafist 1,3 milljarða króna í bætur vegna fimm ára fangelsisvistar sem hann afplánaði.

Með dómi Hæstaréttar Íslands 27. september 2018 voru Kristján Viðar Júlíusson (áður Viðarsson), Sævar Marinó Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson sýknaðir af því að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana í janúar 1974, Albert Klahn Skaftason af því að hafa tálmað rannsókn á brotinu og Guðjón Skarphéðinsson, Kristján Viðar og Sævar Marinó af því að hafa orðið Geirfinni Einarssyni að bana í nóvember 1974.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×