Sport

Minnesota Víkingarnir unnu óvæntan sigur á Dýrlingunum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Dramatískur sigur.
Dramatískur sigur. vísir/getty

Áfram er boðið upp á óvænt úrslit í „Wild Card helginni“ í ameríska fótboltanum þar sem fyrri leik dagsins lauk nú rétt í þessu.

Þar höfðu Íslandsvinirnir í Minnesota Vikings betur gegn New Orleans Saints en í gær féllu ríkjandi meistarar New England Patriots úr leik gegn Tennessee Titans.

Fyrsta helgin í úrslitakeppni NFL deildarinnar er kölluð „Wild Card-helgin“ en þá spila átta lið á meðan fjögur bestu lið deildarinnar í vetur fá að hvíla.

Fáir höfðu trú á að Minnesota Vikings myndi gera frægðarför til New Orleans í dag en þeir voru nálægt því að vinna leikinn í venjulegum leiktíma þar sem þeir voru 13-20 yfir þegar lítið var eftir. Heimamenn náðu að jafna rétt fyrir leikslok og þurfti að framlengja leikinn.

Þar reyndust gestirnir sterkari og unnu sigur, 20-26, er Kyle Rudolph skoraði sigursnertimarkið. Er þetta annar leikurinn af þremur sem búnir eru um helgina sem þarf að framlengja því Houston Texans lagði Buffalo Bills eftir framlengdan leik í gær.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×