Erlent

Mikil spenna milli Grikkja og Tyrkja í Miðjarðarhafinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Rannsóknarskipið Oruc Reis og fylgdarskip þess. Grikkir og Frakkar hafa sömuleiðis sent herskip á vettvang.
Rannsóknarskipið Oruc Reis og fylgdarskip þess. Grikkir og Frakkar hafa sömuleiðis sent herskip á vettvang. AP/IHA

Yfirvöld í Grikklandi hafa sett herafla ríkisins í viðbragðsstöðu vegna deilna þeirra við Tyrki. Hermenn hafa verið kallaðir úr fríum og Frakkar hafa sömuleiðis aukið hernaðarviðveru sína á svæðinu sem deilt er um. Tyrkir sendu í bryjun vikunnar rannsóknarskip á umdeilt hafsvæði sem talið er innihalda töluvert af náttúrugasi. Með í fylgd voru tyrknesk herskip og grísk herskip fylgja þeim eftir.

Grikkir krefjast þess að skipið verði kallað til baka og segja rannsóknirnar vera ólöglegar.

Deilurnar snúa að hafsvæði á milli Krítar og Kýpur. Bæði ríkin gera tilkall til svæðisins og hafa viðræður ekki gengið eftir.

„Okkar ríki mun aldrei ógna öðrum en við munum ekki láta kúga okkur heldur,“ sagði Kyriako Mitsotakis í sjónvarpsávarpi í dag. Hann sagði mikla hættu á að slys yrðu á svæðinu og ítrekaði að ef til átaka kæmi væri það á ábyrgð Tyrkja.

Bæði Grikkland og Tyrkland eru í Atlantshafsbandalaginu.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tilkynnti í gær að hann hefði sent freigátu og tvær orrustuþotur á svæðið. Hann gagnrýndi einnig Tyrki fyrir aðgerðir þeirra og sagði viðræður nauðsynlegar til að leysa deiluna. Fyrst þyrftu Tyrkir þó að hætta aðgerðum sínum.

Samkvæmt frétt Guardian kallaði Macron eftir því í síðasta mánuði að Evrópusambandið beitti Tyrki refsiaðgerðum vegna deilnanna og því sem forsetinn lýsti sem „brotum“ Tyrkja á fullveldi Grikklands og Kýpur.

Josep Borrell, utanríkisráðherra Evrópusambandsins, hefur einnig lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins og boðað til neyðarfundar utanríkisráðsins á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×