Sport

Katrín Tanja birti sætt myndband af sér pínulítilli: Æfi enn fyrir hana í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska CrossFit stjarnna Katrín Tanja Davíðsdóttir nú og þá.
Íslenska CrossFit stjarnna Katrín Tanja Davíðsdóttir nú og þá. Samsett/Instagram

Heimurinn fékk að sjá gamalt myndband af íslensku CrossFit stjörnunni Katrínu Tönju Davíðsdóttur í gær þegar hún setti inn upptöku af sér þegar hún var mjög ung og að stíga sín fyrstu skref í íþróttasalnum.

Katrín Tanja hefur verið dugleg við æfingar að undanförnu en gaf sér tíma til að hugsa til baka og alla leið aftur til þess þegar hún var að byrja í íþróttum og passaði ekki alveg inn í fimleikahlutverkið.

Hún vissi það ekki þá að CrossFit íþróttin væri fullkomin fyrir hana en var þó með það á hreinu að krefjandi og erfiðar æfingar voru eitthvað sem hún var tilbúin í.

Hér fyrir neðan má sjá þessa færslu Katrínar Tönju sem bræddi mörg hjörtu fylgjenda hennar á Instagram í gær.

Katrín Tanja vitnaði þarna í orð knattspyrnugoðsagnarinnar Miu Hamm í upphafi færslu sinnar en Hamm var ein allra besta knattspyrnukona heims í langan tíma og lykilmaður í sigursælu bandarísku landsliði.

„Einhvers staðar á bak við íþróttamanninn sem þú ert í dag og ótal klukkutíma af æfingum og þjálfara sem hafa ýtt þér áfram til að verða betri, þá er þessi litla stelpa sem varð ástfangin af íþróttinni,“ skrifaði Mia Hamm.

Katrín Tanja gróf síðan upp gamalt myndband af sér í íþróttasalnum. Þar kemur ekki fram hversu gömul hún er en líklega er hún ekki mikið meira en fimm til sex ára. Katrín blandaði myndbandinu saman við myndband af sér að gera svipaða æfingu í dag.

„Ég var aldrei góð fimleikakona þegar ég var að alast upp. Ég var stór fyrir fimleikakonu að vera og hlutirnir voru ekki auðveldir fyrir mig. En ég elskaði æfingarnar og ég elskaði agann. Ég missti aldrei ást mína á æfingunum. Ég æfi ennþá fyrir hana í dag,“ skrifaði Katrín Tanja.

„Stundum er það mjög gaman að horfa aðeins til baka og sjá hvaðan þú hefur komið. Það kallar fram ánægju, tekur pressuna í burtu og minnir mig á að njóta þessarar stundu til fulls,“ skrifaði Katrín Tanja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×