Körfubolti

Segja Jón Arnór vera á leiðinni til Vals

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mun Jón Arnór leika með Val á næstu leiktíð?
Mun Jón Arnór leika með Val á næstu leiktíð? Vísir/Bára

Orðrómar eru á kreiki að Jón Arnór Stefánsson - einn albesti körfuboltamaður Íslands fyrr og síðar - gæti fært sig um set og leikið með Val á komandi leiktíð í Domino´s deildinni.

Þetta hefur Karfan.is eftir áreiðanlegum heimildum síðunnar.

Jón Arnór hefur leikið allan sinn feril hér á landi með KR og er fimmfaldur Íslandsmeistari með liðinu. Þá lék hann sem atvinnumaður í Evrópu í alls 13 tímabil. Jón Arnór vann Evrópudeild FIBA með rússneska liðinu Dynamo Saint frá Pétursborg árið 2005. Hann hefur tólf sinnum verið kjörinn körfuboltamaður ársins hér á landi ásamt því að vera valinn íþróttamaður ársins árið 2014.

Miklar hræringar eru í íslenskum körfubolta þessa dagana og Valsmenn eru að safna liði. Fyrrum þjálfari Jóns hjá KR - Finnur Freyr Stefánsson - er tekinn við stjórnartaumunum á Hlíðarenda. Þá er Pavel Ermolinskij, góðvinur Jóns, á  mála hjá félaginu.

Jón verður 38 ára gamall í vetur og hefur hann ætlað að leggja skóna á hilluna undanfarin tvö ár. Í bæði skiptin hefur hann hætt við og nú virðist sem mögulega verði hans síðasta tímabil einnig hans fyrsta í öðru liði en KR hér á landi.

Einnig er talið að Helgi Már Magnússon gæti skipt úr KR yfir í Val. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×