Handbolti

Stjarnan fær mann sem að hafnaði Barcelona til að spila fótbolta

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnar Hrafn Pálsson og Adam Thorstensen eru komnir í Stjörnuna þar sem Patrekur Jóhannesson er þjálfari.
Gunnar Hrafn Pálsson og Adam Thorstensen eru komnir í Stjörnuna þar sem Patrekur Jóhannesson er þjálfari. samsett mynd/@stjarnan handbolti

Handknattleiksdeild Stjörnunnar hefur samið við tvo efnilega leikmenn sem leikið hafa saman upp öll yngri landslið Íslands.

Þetta eru þeir Gunnar Hrafn Pálsson og Adam Thorstensen, sem báðir eru fæddir árið 2002 og bætast nú í leikmannahóp Patreks Jóhannessonar sem tók við Stjörnunni í sumar.

Gunnar Hrafn, sem er miðjumaður og skytta, er sonur Páls Þórólfssonar sem var á sínum tíma samherji Patreks hjá Essen í Þýskalandi. Gunnar Hrafn er uppalinn í Gróttu og lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki 15 ára. Bróðir hans, Aron Dagur, lék með Stjörnunni áður en hann fór til Alingsås í Svíþóð í fyrra.

Í fréttatilkynningu Stjörnunnar segir að Adam, sem er markmaður, hafi boðist að fara til reynslu hjá spænska stórliðinu Barcelona árið 2018. Adam hafði þá staðið sig vel með ungmennalandsliði Íslands, en hann kaus að hafna boðinu til að spila fótbolta.

Adam er uppalinn ÍR-ingur en er nú kominn til Stjörnunnar í handboltanum og skipti yfir í Víking R. í fótboltanum síðasta vetur, þar sem hann lék með 2. flokki félagsins. Miðað við tilkynningu Stjörnunnar hefur Adam nú ákveðið að einbeita sér að handboltanum.

„Við hjá Stjörnunni erum mjög spennt að fá ungan og jafn hæfileikaríkan markmann og Adam. Það verður frábært að fylgja honum næstu árin og þróa hans hæfileika,“ segir Stephen Nielsen markmannsþjálfari Stjörnunnar.

Brynjar Darri Baldursson og Sigurður Dan Óskarsson munu ásamt Adam leysa markmannsstöðuna hjá Stjörnunni í vetur.

Í vor gekk Stjarnan frá samkomulagi við markahæstu leikmenn KA og HK, þá Dag Gautason og Pétur Árna Hauksson, sem munu spila með liðinu í vetur. Hafþór Már Vignisson, sem var næstmarkahæstur hjá ÍR á síðustu leiktíð, er einnig kominn í Garðabæinn.


Tengdar fréttir

Patrekur vill akademíu í samstarfi við körfuna

Patrekur Jóhannesson, sem tekur við handboltaliði karla hjá Stjörnunni 1. júní, vill að farin verði sama leið í Garðabæ og á Selfossi með því að koma á fót handboltaakademíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×