Handbolti

Stjarnan semur við markahæstu leikmenn HK og KA

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Dagur var valinn besti ungi leikmaður fyrri hluta Olís-deildarinnar af Seinni Bylgjunni í fyrra.
Dagur var valinn besti ungi leikmaður fyrri hluta Olís-deildarinnar af Seinni Bylgjunni í fyrra. Vísir/Skjáskot

Handknattleikslið Stjörnunnar hefur náð í góðan liðsstyrk fyrir átökin í Olís-deild karla næsta vetur en í dag sömdu þeir Dagur Gautason og Pétur Árni Hauksson við Garðabæjarliðið.

Dagur kemur frá KA en hann var markahæsti leikmaður KA-manna í Olís-deildinni á síðustu leiktíð með 85 mörk. Þessi öflugi vinstri hornamaður hefur leikið fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands.

Pétur Árni er uppalinn Stjörnumaður en lék með HK á síðustu leiktíð og var markahæsti leikmaður HK með 69 mörk þegar Kópavogsliðið féll úr efstu deild. Þessi örvhenta skytta hefur, líkt og Dagur, leikið fyrir yngri landslið Íslands.

Ljóst er að Stjarnan ætlar sér stóra hluti í handboltanum á næstu leiktíð en liðið hafnaði í 8.sæti Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð.

Patrekur Jóhannesson tekur við þjálfun Stjörnunnar í sumar og hafa Garðbæingar farið af stað af krafti á leikmannamarkaðnum þar sem félagið keypti örvhentu skyttuna Hafþór Má Vignisson frá ÍR á dögunum. 

Patrekur sannarlega að sanka að sér markamaskínum en Hafþór Már var næstmarkahæsti leikmaður ÍR á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×