Erlent

Rainn Wil­son og Stjörnu-Sæ­var spjalla um lofts­lags­vána

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sævar Helgi og Rainn Wilson rölta eftir Tryggvagötunni og spjalla um loftslagsmál.
Sævar Helgi og Rainn Wilson rölta eftir Tryggvagötunni og spjalla um loftslagsmál. Skjáskot/YouTube

Leikarinn Rainn Wilson, sem er best þekktur fyrir að hafa farið með hlutverk Dwight Schrute í þáttunum The Office, spjallaði við Sævar Helga Bragason, einnig þekktur sem Stjörnu-Sævar, í fyrsta þætti þáttaraðarinnar Don‘t Be An Idiot sem birtur var á YouTube í gær. Í þáttunum fjallar Wilson um loftslagsmál og breytingar þess en í þessum þætti heimsótti hann Ísland.

Í þættinum er Wilson fylgt á ferðalagi um Ísland þar sem hann leitast eftir svörum um loftslagsbreytingar og tók hann Sævar Helga á tal, en Sævar er mikill loftslagsaðgerðarsinni og vakti hann meðal annars mikla athygli fyrir þættina Hvað höfum við gert sem sýndir voru á RÚV í fyrra.

„Fyrst þú ert íslenski sérfræðingurinn og ég er að hefja þessa vegferð mína, útskýrðu fyrir mér hverjir tíu mikilvægustu punktarnir eru þegar kemur að loftslagsbreytingum,“ segir Wilson í upphafi spjallsins við Sævar.

Sævar og Wilson við Kirkjustræti.Skjáskot/YouTube

„Ástæðan er fyrst og fremst sú að við erum að brenna jarðefnaeldsneyti sem við sækjum djúpt ofan í jörðina og pumpum svo út í andrúmsloftið. Það myndar eins konar teppi í kring um jörðina sem leiðir til hlýrra loftslags. Meðalhiti jarðarinnar er að hækka og þegar hann hækkar leiðir það til að mynda til öfgafyllra veðurs og súrnunar sjávar,“ svarar Sævar.

Félagarnir halda áfram loftslagsspjallinu á meðan þeir rölta um miðbæ Reykjavíkur og ganga þeir um Austurvöll, Austurstræti og fleiri þekktar götur Reykjavíkur. Sævar heldur áfram upptalningu á því sem hefur mikil áhrif á loftslagið og nefnir hann þar meðal annars skógareyðingu, hve mikið rusl við framleiðum, að borða rautt kjöt og aðra neyslu.

„Kannski þurfum við bara að hægja aðeins á okkur, neyta minna. Við þurfum ekki að fylla húsin okkar af rusli sem við notum ekki einu sinni. Eins og til dæmis, ég veit ekki hvað þú átt marga vasa heima en eru blóm í þeim öllum alltaf?“ spyr Sævar.

„Ég á svona sex blómavasa sem ég nota aldrei,“ svarar Wilson.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×