Sport

Sigraði Gunnar og fær titilbardaga á nýju bardagaeyjunni

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnar Nelson og Gilbert Burns mættust í Kaupmannahöfn í september.
Gunnar Nelson og Gilbert Burns mættust í Kaupmannahöfn í september. VÍSIR/GETTY

Dana White, forseti UFC, hefur nú upplýst hvar hin svokallaða bardagaeyja verður staðsett, þar sem næsta stóra bardagakvöld mun fara fram þann 11. júlí.

White hefur náð samningum við aðila í Abu Dhabi um að þar verði keppt í UFC 251 í næsta mánuði, sem og á þremur bardagakvöldum til viðbótar dagana 15., 18. og 25. júlí. Keppt verður á eyjunni Yas og segir White að þar verði búið að koma upp öllum nauðsynlegum aðbúnaði fyrir keppendur.

„Það mun allt gerast á eyjunni. Það fer enginn þaðan. Keppendur verða með sínar eigin æfingabúðir þar sem þeir geta æft út af fyrir sig. Við verðum í alvörunni með átthyrning [til æfinga] í sandinum. Umgjörðin þarna verður ótrúleg. Fólkið í Abu Dhabi gerir þetta allt rétt,“ sagði White á Facebook-síðu UFC.

White tilkynnti jafnframt að aðalbardagi UFC 251 kvöldsins yrði titilbardagi áskorandans Gilbert Burns og meistarans Kamaru Usman, í veltivigt. Burns hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn en Brasilíumaðurinn vann nauman sigur gegn Gunnari Nelson í þriggja lotu bardaga í Kaupmannahöfn í september síðastliðnum. Síðan þá hefur hann unnið Demian Maia og svo fyrrverandi meistarann Tyron Woodley fyrir rúmri viku.

Nate Diaz er þó greinilega allt annað en hrifinn af því að Burns skuli fá titilbardaga og segir á Twitter að svona sé þetta þegar að bardagamenn viti að þeir séu einskis virði – þeir taki ódýrum samningum. „Þetta er ekki titilbardagi,“ sagði Diaz.

UFC frestaði nokkrum keppnum frá mars og fram í maí vegna kórónuveirufaraldursins en keppni án áhorfenda hófst að nýju 9. maí í Flórída.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×