Sport

Conor segist hættur í enn eitt skiptið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Conor McGregor er hættur að berjast, ef marka má hans orð.
Conor McGregor er hættur að berjast, ef marka má hans orð. vísir/getty

UFC-bardagakappinn skrautlegi og Íslandsvinurinn, Conor McGregor, tilkynnti á Twitter-síðu sinni í morgun að hann væri hættur að berjast. Hann þakkaði fyrir sig og sagðist hættur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Conor, sem er 31 árs, segist vera hættur en hann sagðist einnig hættur árin 2016 og 2019 en endaði á því að snúa aftur í hringinn og berjast á nýjan leik.

Kjaftfori Írinn barðist síðar í janúar á þessu ári er hann hafði betur gegn Donald 'Cowboy' Cerrone á aðeins 40 sekúndum. Hann hefur unnið 22 af sínum bardögum og einungis tapað fjórum.

Það er ekki bara í UFC sem Conor hefur barist en hann ákvað einnig að boxa gegn fimmföldum heimsmeistara, Floyd Mayweather, í ágúst 2017 en hann tapaði þeim bardaga. Veskið hans óx þó við þann bardaga svo um munaði.

Það hefur mikið gustað í kringum Conor og bardagi hans gegn Khabib Nurmagodemov í október árið 2018 verður lengi í minnum hafðum fyrir allt annað en fagurleika en þeir eru engir perluvinir, Khabib og Conor.

McGregor hefur komið upp í gegnum starf UFC og varð fyrsti maðurinn innan greinarinnar sem var heimsmeistari í tveimur þyngdarflokkum. Sigur hans gegn Cerrone á þessu ári var fyrsti sigur hans í hringnum síðan 2016.

Það verður því fróðlegt að sjá hvort Írinn standi við stóru orðin og sé nú hættur fyrir fullt og allt.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×