Sport

Öfugsnúin Sara hrundi í gólfið í miðri upptöku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir setti það inn á Instagram síðu sína þegar ein upptakan hennar mistókst svakalega. Hér eru mynd af henni af Instagram og skjámynd af því þegar hún dettur.
Sara Sigmundsdóttir setti það inn á Instagram síðu sína þegar ein upptakan hennar mistókst svakalega. Hér eru mynd af henni af Instagram og skjámynd af því þegar hún dettur. Mynd/Instagram

Íslenska CrossFit drottningin Sara Sigmundsdóttir felur ekki mikið fyrir aðdáendum sínum á samfélagsmiðlum og er alveg tilbúin í að hlæja svolítið að sjálfri sér.

Eitt af því mest heillandi við Söru er að hún tekur sig ekki of alvarlega í samskiptum sínum og á miðlum sínum. Það fá því oft að detta inn myndbönd sem annað íþróttafólk myndi líklega ekki sýna heiminum. Sara er með tæplega tvær milljónir fylgjenda á Instagram.

Sara þurfti að fullvissa aðdáendur sína um að það væri allt í lagi með hana um leið og hún setti inn nýjasta myndbandið á Instagram síðu sína.

Sara hékk þar öfug á slá og ætlaði sér aðeins að auglýsa drykkinn sinn með því að drekka á hvolfi. Það vildi þó ekki betur en svo að hún hrundi í gólfið í miðri upptöku eins og sjá má hér fyrir neðan.

„Það er allt í lagi með mig,“ skrifaði Sara við færsluna sína. Það má líka sjá það að hún skellihlær að sjálfri sér eftir fallið sem var örugglega mikill léttir fyrir alla.

Fyrir nokkrum dögum greindi Sara frá því að hún hafði fengið ljótan skurð á fótinn og að þurft hefði að sauma tólf spor í fótlegginn hennar.

Aðdáendur hennar á Instagram voru samt fljótir að sjá húmorinn í þessu.

„Ég heyrði gólfið segja æi en ekki þig. Harðgerð og hraust stelpa,“ skrifaði einn.

Annar ráðlagði Söru hins vegar að hætta öllum fíflagangi:

„Þessir fyndu leikir þínir geta búið til meiðsli. Heimsleikarnir eru að nálgast og ef þú ætlar þér að verða meistari geymdu þetta þá þar til að þeir eru búnir“.

Sara hefur tryggt sér keppnisrétt á heimsleikunum í haust þar sem hún stefnir á sinn fyrsta heimsmeistaratitil.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×