Handbolti

Síðasta landsliðstreyja Guðjóns í góðum höndum

Sindri Sverrisson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson lék sinn síðasta landsleik á EM í Svíþjóð í janúar og gaf Arnóri Þór Gunnarssyni, félaga sínum í hinu horninu, treyjuna eftir leik.
Guðjón Valur Sigurðsson lék sinn síðasta landsleik á EM í Svíþjóð í janúar og gaf Arnóri Þór Gunnarssyni, félaga sínum í hinu horninu, treyjuna eftir leik. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Ég er bara þakklátur fyrir að hafa spilað með þér í þessi tíu ár með landsliðinu,“ segir Arnór Þór Gunnarsson í kveðju til Guðjóns Vals Sigurðssonar eftir að Guðjón setti handboltaskóna á hilluna á dögunum.

„Þú ert frábær leikmaður, frábær persóna, leiðtogi og frábær vinur. En já, þú verður bara að finna þér eitthvað annað að gera. Fara í golf eða eitthvað,“ segir Arnór léttur en kveðja hans birtist í Seinni bylgjunni, þætti Henrys Birgis Gunnarssonar á Stöð 2 Sport. Guðjón var reyndar ekki lengi að finna sér eitthvað að gera því hann er orðinn þjálfari Gummersbach í Þýskalandi.

Arnór upplýsti að hann væri með í sínum fórum treyjuna sem Guðjón klæddist í síðasta leiknum á mögnuðum landsliðsferli sínum. Guðjón á heimsmetið í skoruðum mörkum fyrir landslið, með 1.879 mörk, og ljóst að það met verður ekki slegið á næstunni.

„Ég spurði þig hvort að ég mætti fá treyju hjá þér eftir síðasta leikinn okkar á EM úti í Svíþjóð, núna í janúar 2020. Þetta er goðsagnakennd treyja, það má alveg segja það, og þessi fer í „man cave“ þegar ég flyt heim til Íslands, það er alveg klárt. Takk fyrir allt Gaui,“ sagði Arnór sem búinn er að ramma treyjuna inn eins og sjá má í innslaginu hér að neðan.

Fáir traustari en Arnór þegar á hólminn er komið

„Það var aldrei spurning, eftir að hann spurði mig, hann gat fengið þessa treyju,“ sagði Guðjón um Arnór, eða Malla eins og hann er kallaður. „Malli er svo skemmtilegur. Hann er svo grjótharður inni á vellinum. Hann er náttúrulega ekki hávaxinn en maður sér að það er eitthvað dýr sem býr þarna inni og hann er alltaf tilbúinn að leggja allt á sig. En svo getur hann verið svo týndur utan vallar að maður er bara „Malli, hvar ertu?“. En það eru fáir traustari þegar á hólminn er komið. Þetta er einn af þessum mönnum sem þú vilt að sé með boltann þegar lítið er eftir. Hann er mjög ábyrgur og góður þessi maður, og yndislegur í hóp líka,“ sagði Guðjón.

Klippa: Seinni bylgjan - Arnór Þór sendi Guðjóni kveðju

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

„Ein erfiðasta rútuferð sem ég hef farið í“

Guðjón Valur Sigurðsson, markahæsti landsliðsmaður í handbolta í heimi, gerði upp landsliðsferilinn í Seinni bylgjunni á mánudaginn en hann lagði skóna á hilluna fyrr í mánuðinum.

Annar var rotaður og hinn kjálkabrotinn

Guðjón Valur Sigurðsson fær enn í magann þegar hann hugsar til þess að hann hafi sagt Alexander Petersson að harka af sér á EM í Sviss 2006. Seinna kom í ljós að Alexander var kjálkabrotinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.