Handbolti

Guð­mundur æfði menn í að vakna snemma á Ólympíu­leikunum: „Al­gjör bilun“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón Valur gerði upp landsliðsferilinn í Seinni bylgjunni á mánudaginn.
Guðjón Valur gerði upp landsliðsferilinn í Seinni bylgjunni á mánudaginn. vísir/s2s

Guðjón Valur Sigurðsson segir að eitt það fyrsta sem hann muni eftir frá Ólympíuleikunum 2008 er sú staðreynd að Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, hafi æft liðið í að vakna snemma á morgnanna því sumir leikirnir voru spilaðir árla morguns.

Guðjón Valur gerði upp landsliðsferilinn í Seinni bylgjunni á mánudagskvöldið þar sem margar skemmtilegar sögur komu upp á borðið og margar þeirra sem hafa ekki heyrst áður. Ein þeirra var af Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 þar sem Ísland náði í silfur.

„Að fara á Ólympíuleikana var eitthvað sérstakt. Þetta var miklu flottara Ólympíuþorp heldur en í Grikklandi og Kínverjarnir voru alveg með þetta upp á tíu þó svo að það hafi ekki verið mikill fjöldi á leikjunum,“ sagði Guðjón Valur en þetta voru hans aðrir Ólympíuleikar. Hann fór einnig með liðinu til Grikklands árið 2004.

„Það er samt svo fyndið. Maður hugsar um ákveðna leiki. Við komumst í úrslit og komum heim með silfur en eitt það fyrsta sem kemur upp er það þegar Gummi ákveður að láta okkur æfa að vakna snemma. Það er náttúrlega algjör bilun.“

„Núna þegar maður hugsar til baka segir maður bara: Gummi, hvað varstu að hugsa? En þá var það náttúrlega hugsun á bak við það. Við kláruðum leik og dagurinn eftir var frí en svo þurfum við að vakna klukkan fimm því við áttum leik klukkan níu held ég.“

Hann segir þó að allir leikmenn liðsins hafi ekki verið mættir á tilsettum tíma í morgunmatinn og Guðjón hafi þurft að ljúga að stjóranum.

„Daginn áður þá mátti ekkert sofa til níu eða tíu heldur áttum við að vakna klukkan sjö og færa okkur aðeins fyrr. Það voru ákveðnir menn sem gerðu það ekki. Þjálfarinn kom að mér og spurði mig einu sinni hvar tveir voru og spurði mig hvar þeir voru. Ég sagði að þeir hafi farið fyrr í morgunmat og væru búnir sem er algjör lygi. Maður skammast sín fyrir það núna.“

Klippa: Seinni bylgjan - Guðjón um Ólympíuleikana 2008

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.