Handbolti

Patrekur vill akademíu í samstarfi við körfuna

Sindri Sverrisson skrifar
Patrekur Jóhannesson er að taka við liðinu sem hann hóf ferilinn með.
Patrekur Jóhannesson er að taka við liðinu sem hann hóf ferilinn með. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Patrekur Jóhannesson, sem tekur við handboltaliði karla hjá Stjörnunni 1. júní, vill að farin verði sama leið í Garðabæ og á Selfossi með því að koma á fót handboltaakademíu.

Unglingaakademían á Selfossi á sinn þátt í að búa til afar færa landsliðs- og atvinnumenn á síðustu árum og undir stjórn Patreks Jóhannessonar fögnuðu Selfyssingar Íslandsmeistaratitli í handbolta í fyrsta sinn í fyrra. Patrekur stýrði Skjern í Danmörku í vetur en er svo kominn í brúna hjá sínu uppeldisfélagi.

„Þegar ég ákvað að koma í Garðabæinn þá langaði mig, eftir að hafa verið á Selfossi að vinna með handboltaakademíu, að koma því á í Garðabænum. Síðustu mánuði hef ég því verið í samskiptum við hið góða fólk hjá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, um hvort það væri möguleiki að koma þessu í gang,“ segir Patrekur í Sportinu í dag. 

Frábært að geta boðið upp á aukaæfingar

Hann hefur verið í sambandi við Rúnar Pál Sigmundsson, þjálfara knattspyrnuliðs Stjörnunnar, og Arnar Guðjónsson þjálfara deildar- og bikarmeistaranna í körfubolta, og vill samstarf við körfuboltadeildina.

„Knattspyrnudeildin hefur verið með akademíu í eitt ár og það hefur gengið vel. Eftir að ég fór að hugsa þetta betur, og ræða við Arnar körfuboltaþjálfara, þá er sú hugmynd komin að við gerum þetta saman. Það er það sem ég vona að komist í gang. Það væri frábært að geta boðið upp á aukaæfingar eins og við gerðum á Selfossi því ég veit að það skilar sér. Það er það sem ég hef verið að vinna í auk þess að búa til nýtt lið,“ segir Patrekur.

Þarf að hætta þessu kjaftæði

Einhver kergja hefur virst á milli handboltans og körfuboltans í Stjörnunni, ekki síst varðandi húsnæðismál eftir að handknattleiksdeildin lýsti yfir að hún vildi nýta Ásgarð sem heimavöll líkt og körfuboltaliðin, en Patrekur vill að menn snúi bökum saman.

„Auðvitað hef ég fylgst með umræðunni, þó að ég byrji ekki að vinna fyrr en 1. júní. Þessu þarf bara að breyta, og hætta bara þessu kjaftæði. Eftir að ég fór að hitta fólk, bæði körfuboltadeildina og Rúnar Pál frænda minn… það er eitthvað búið að vera í gangi en því þarf bara að snúa. Mér finnst frábært ef að við náum að gera þetta saman með körfunni. Það væri mjög jákvætt,“ segir Patrekur.

Klippa: Sportið í dag - Patrekur vill að karfan og handboltinn vinni saman

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

Svona var Sportið í dag

Í Sportinu í dag var teymi Stöðvar 2 Sports fyrir umfjöllun um Pepsi Max-deild karla kynnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×