Innlent

Krufning bendir til þess að ferða­mennirnir hafi orðið úti á Sól­heima­sandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Líkin fundust á Sólheimasandi í síðustu viku.
Líkin fundust á Sólheimasandi í síðustu viku. Vísir/Landmælingar
Bráðabirgðaniðurstaða krufningar á líkum tveggja kínverskra ferðamanna sem fundust á Sólheimasandi þann 16. janúar síðastliðinn bendir til þess að þau hafi orðið úti í óveðri sem gekk yfir þar dagana á undan.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Þar segir jafnframt að ekki séu merki um utanaðkomandi aðila og að ekki sé grunur um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað. Þá verði áfram unnið úr þeim gögnum sem aflað hefur verið til að varpa frekari ljósi á ferðir fólksins á þessum slóðum. Endanleg niðurstaða krufningar mun svo liggja fyrir að einhverjum vikum liðnum. 

Karlmaðurinn sem lést var fæddur árið 1997 og konan árið 1999. Þau voru vinir og stunduðu nám í Bretlandi. Aðstandendur þeirra komu til landsins á sunnudaginn og átti lögregla fund með þeim og fulltrúum kínverska sendiráðsins á mánudag.

Tilkynningu lögreglu lesa má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Bráðabirgðaniðurstaða krufningar á líkum tveggja kínverskra ferðamanna, karlmanns sem fæddur var 1997 og konu sem fædd var 1999, sem fundust á Sólheimasandi þann 16. janúar s.l. bendir til þess að fólkið hafi orðið úti í óveðri sem gekk yfir dagana þar á undan.

Ekki eru merki um aðkomu utanaðkomandi aðila og ekki er grunur um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað. Áfram verður unnið úr þeim gögnum sem aflað hefur verið til að varpa frekari ljósi á ferðir þeirra á þessum slóðum.   Endanleg niðurstaða krufningar mun liggja fyrir að einhverjum vikum liðnum.

Aðstandendur fólksins komu til landsins s.l sunnudag og fundaði lögregla með þeim og fulltrúum kínverksa sendiráðsins á mánudag.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×