Fótbolti

Ighalo segir ekkert tilboð á borðinu frá United

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ighalo fagnar marki gegn LASK í Evrópudeildinni skömmu áður en allur fótbolti var settur á ís.
Ighalo fagnar marki gegn LASK í Evrópudeildinni skömmu áður en allur fótbolti var settur á ís. vísir/getty

Odion Ighalo segir að Manchester United hafi enn ekki lagt fram tilboð í hann. Nígeríumaðurinn er nú á láni hjá félaginu frá kínverska félaginu frá Shanghai Shenua.

Framherjinn kom sterkur inn í lið United eftir að hafa komið frá Kína áður en enski boltinn var settur á ís vegna kórónuveirunnar. Óvíst er hvenær boltinn fer aftur að rúlla en lánssamningur Ighalo átti að renna út í sumar.

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, hefur talað um það að hann vilji halda þessum þrítuga framherja en hann segir þó að ekkert tilboð sé komið.

„Það er ekkert tilboð á borðinu,“ sagði Ighalo í samtali við Elegbete TV. Hann hafði skorað fjögur mörk í átta leikjum áður en allur fótbolti var stöðvaður.

„Tímabilið er stopp og ég er enn á lánssamningi. Ég tek þessa ákvörðun ekki einn. Ég bið til Guðs að hann vísi mér veginn. Ég hef séð mörg tíst um þetta og sumir segja mér að fara aftur til Kína en aðrir segja mér að vera áfram hjá United.“

„Hafiði séð mig segja eitthvað? Ég hef ekkert að segja. Þegar tímabilinu er lokið og ef ég fæ samninga frá tveimur félögum mun ég setjast niður, biðja til Guðs og það sem hann mun segja mér að gera, það mun ég gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×