Enski boltinn

Keirrison ekki á leið til Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Keirrison í leik með Palmeiras.
Keirrison í leik með Palmeiras. Nordic Photos / AFP
Forráðamenn brasilíska liðsins Palmeiras segja að sóknarmaðurinn Keirrison sé ekki á leið til Liverpool í sumar eins og vangaveltur hafa verið um.

Keirrison er tvítugur og þykir einn efnilegasti leikmaður Suður-Ameríku um þessar mundir. Hann var markahæsti leikmaður brasilísku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili en þá lék hann með Coritiba.

Hann hefur strax slegið í gegn hjá Palmeiras þar sem hann hefur skorað átta mörk í sex leikjum.

Toninho Cecilio, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, segir Keirrison ekki á leiðinni til Englands.

„Ég vil ekki eyða miklum tíma í þetta Liverpool-mál þar sem það er ekki satt. Við eigum í góðum sambandi við Liverpool sem keypti af okkur áður markvörðinn Diego Cavalieri og ef það væri eitthvað rétt í þessum fregnum hefðum við frétt fyrstir manna af því."

„Það er stefna stjórnarinnar að halda leikmanninum eins lengi og mögulegt er áður en hann heldur til Evrópu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×