Enski boltinn

Engin tilviljun að Fulham bauð ekki Bullard samning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jimmy Bullard í sínum eina leik með Hull til þessa.
Jimmy Bullard í sínum eina leik með Hull til þessa. Nordic Photos / Getty Images
Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Fulham, hefur viðurkennt að líkamlegt ástand Jimmy Bullard hafi verið haft í huga þegar félagið ákvað að bjóða honum ekki langtímasamning.

Bullard er þrítugur og kaus að fara til Hull í síðasta mánuði þar sem hann skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning. Hull gaf honum myndarlega launahækkun og greiddi Fulham fimm milljónir punda fyrir hann.

Bullard hefur þó aðeins náð að spila einn leik með Hull. Hann meiddist eftir að hafa komið inn á sem varamaður gegn West Ham og verður frá út tímabilið.

Hann var á sínum tíma frá í sextán mánuði eftir að hann varð fyrir meiðslum á sama hné og hann er meiddur á nú.

„Við vissum ekkert um þessi nýjustu meiðsli," sagði Hodgson. „En ef við hefðum hunsað hans meiðslasögu hefðum við ekki verið að sinna okkar starfi."

„Þetta var eitthvað sem við höfðum í huga. En hafði samt ekki úrslitavald þar sem hann spilaði nánast hvern einasta leik eftir meiðslin. Við höfðum því enga ástæðu til að telja um að hnéð hans myndi gefa sig á ný."

„En þegar maður er að skoða að gefa hvaða leikmanni sem er þriggja eða fjögurra ára samning verður maður að skoða alla mögulega fleti á málinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×