Enski boltinn

Hver er þessi Fraizer Campbell?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fraizer Campbell.
Fraizer Campbell. Mynd/Nordic Photos/Getty
Stuart Pearce, afleysingaþjálfari enska landsliðsins í fótbolta, valdi Fraizer Campbell óvænt í landsliðshóp sinn fyrir vináttulandsleik á móti Hollendingum í næstu viku. En hver er þessi leikmaður?

Fraizer Campbell er 24 ára framherji eða kantmaður sem hefur spilað með Sunderland-liðinu frá árinu 2009. Campbell er nýkominn til baka eftir erfið meiðsli en hefur staðið sig mjög vel í síðustu leikjum.

Fraizer Campbell er uppalinn hjá Manchester United en lék aðeins tvo leiki með fyrir félagið sem lánaði hann til Royal Antwerp (2006-07), Hull City (2007-08) og Tottenham Hotspur (2008-09) áður en hann var seldur til Sunderland fyrir 3,5 milljónir punda 2009.

Campbell er nýkominn til baka eftir að hafa slitið krossband en hann skoraði eitt og lagði upp annað í 3-0 sigri á Norwich í fyrsta leik sínum eftir að hann kom til baka. Campbell er með 2 mörk og 2 stoðsendingar í 5 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu

Campbell hefur aldrei verið valinn í enska A-landsliðið en skoraði 4 mörk í 14 leikjum með 21 árs landsliðinu frá 2008 til 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×