Innlent

Líkamsræktarstöð má ekki selja áfengi

Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar hefur hafnað beiðni líkamsræktarstöðvar um sölu á áfengi. Eigandi stöðvarinnar segir ósamræmi í reglum innanlands.

Á fundi samfélags- og mannréttindaráðs á mánudag var tekin fyrir beiðni frá Guðrúnu Gísladóttur eiganda líkamsræktarstöðvarinnar Átaks á Akureyri, þar sem sótt var um áfengisveitingaleyfi. Þeirri ósk var hafnað.

Samfélags- og mannréttindaráð bókaði að starfsemi líkamsræktarstöðvar og áfengisveitingastaðar fari ekki saman og beinir þeim tilmælum til Átaks að það falli frá hugmyndum sínum um áfengisveitingastað. Ráðið segir: "Líkamsræktarstöðvar eiga að vera ímynd heilsueflingar í víðum skilningi og leita m.a. markaðar hjá ungu fólki. Með áfengisveitingastað er þeirri ímynd raskað og skapað fordæmi ekki síst í ljósi þess að unglingar allt niður í 14 ára aldur geta sótt staðina."

Guðrún Gísladóttir eigandi Átaks vil segist hissa á afgreiðslu bæjarins. Fordæmi séu fyrir því að fyritæki svipaðrar gerðar hafi fengið leyfi til að selja áfengi. Hún hafi aðeins ætlað að bjóða upp á léttvín og létt áfengi og veitingasalurinn sé aðskilinn líkamsræktarsalnum. Fyrirmyndir finnist víða, ekki bara erlendis heldur einnig innanlands og greinilegt sé að sömu reglur gildi ekki í sveitarfélögum innanlands um þessi mál. Átak hefur ekki tekið afstöðu til framhalds málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×