Innlent

Afurðastöðvar koma ekki að samningnum

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) mótmælir því harðlega að enginn fulltrúi afurðastöðva sé tilnefndur í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að mótmælin komi í kjölfar frétta um breytta skipan í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Stjórn SAM telur að með skipan hópsins sé ekki farið að lagaákvæðum um skipan samráðshópsins.

Bendir stjórn samtakanna á að í 60. grein laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum, tollalögum og lögum um velferð dýra, sem samþykkt voru á Alþingi þann 13. september 2016, segi orðrétt: „Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni.“

Í tilkynningu SAM segir að aðilar sem séu taldir upp í lagagreininni eigi fulltrúa í samráðshópnum og sumir jafnvel marga – allir aðrir en afurðastöðvar. 

„Í ljósi þess að afurðastöðvar eiga ekki sæti í samstarfshópnum harmar stjórn SAM hve takmörkuð samvinnan virðist eiga að vera og telur að takmörkunin minnki líkur á að sátt náist um hugsanlegar breytingar á búvörusamningi og búvörulögum,“ segir í lokin á tilkynningunni. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×