Innlent

Blogg blaðamanns ekki brotlegt við siðareglur

Andri Ólafsson skrifar
Rannveig Rist kærði blaðamann til siðanefndar vegna bloggfærslu sem hún telur hann hafa skrifað.
Rannveig Rist kærði blaðamann til siðanefndar vegna bloggfærslu sem hún telur hann hafa skrifað.

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands(BÍ) hefur vísað frá kæru Rannveigar Rist, forstjóra Alcan sem kærði Þórð Snæ Júlíussn, blaðamann 24 stunda, fyrir bloggfærslu sem birt var í febrúar á þessu ári.

Þetta er í fyrsta skipti sem siðnefndin fæst við mál er varðar bloggskrif blaðamanna.

Blaðamanninum sjálfum var ókunnugt um að mál er hann varðaði væri til umfjöllunar hjá siðanefndinni fyrr en blaðamaður Vísis ætlaði að fá hjá honum viðbrögð við úrskurðinum.

Rannveig kærði Þórð Snæ fyrir bloggfærslu sem birtist á bloggsíðunni thessarelskur.blogspot.com. Í færslu sem birtist þar, og var eignuð bloggara að nafni "Þýska stálið" er Rannveig bendluð við eiturlyfjaneyslu auk þess sem hún er sögð "daðra við að vera þroskaheft".

Undir sömu færslu er að finna mynd af kæranda þar sem hún sker sneið af tertu. Þar segir orðrétt í myndatexta: "Álfrúin sker sér sneið af contalgen tertu".

Nafn Þórðar Snæs var ekki að finna við bloggfærsluna en Rannveig Rist telur hinsvegar víst að það sé Þórður Snær sem beri ábyrgð á skrifunum. Hún staðhæfir að Þórður noti auðkennið "Þýska stálið" þegar hann bloggi á síðunni.

Siðanefndin vísaði málinu frá á þeim forsendum að hin kærðu skrif hafi verið sett fram sem persónuleg skoðun eða tjáning sem blaðamaðurinn eigi lögverndaðan rétt til. Siðanefndin sér ástæðu til að taka fram að blaðamaðurinn beri ábyrgð á skrifunum og verði að svara til saka fyrir þau eftir atvikum, án þess að þau tengist beint störfum hans sem blaðamanns.

Þórður Snær Júlíusson kom af fjöllum í kvöld þegar Vísir ætlaði að bera undir hann úrskurð siðanefndarinnar. Hann sagðist ekki hafa haft hugmynd um að þetta mál og þessi bloggfærsla væri til umfjöllunar hjá siðanefndinni.

Hann sagði að fjölmargir aðilar skrifuðu á umrædda síðu og einkennilegt væri að honum væri eignuð hin umdeildu skrif um Rannveigu Rist.

Þórður sagði að hvorki Rannveig Rist, né lögmaður hennar, hefðu sett sig í samband við hann vegna málsins.

Hann bætti því við að sér hefði þótt það eðlilegt að sér hefði verið tilkynnt um að mál er hann varðaði væri til umfjöllunar hjá BÍ.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.