Innlent

Rennsli eykst enn í Gígjukvísl

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/árni sæberg
Rennsli eykst enn í Gígjukvísl vegna jökulhlaups úr Grímsvötnum.

Síðan á mánudag hefur rennsli í ánni aukist mikið en er þó ennþá minna heldur en á rennslismiklum dögum að sumri. Rafleiðni, sem er vísbending um hlutfall jarðhitavatns í ánni, hefur einnig aukist mikið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá eftirlitsmanni á vatnavakt Veðurstofunnar.

Íshellan á Grímsvötnum lækkað samkvæmt mælingum Jarðvísindastofnunnar Háskólans og nálgast hæð íshellunnar nú þau mörk þar sem rennsli úr Grímsvötnum hefur stöðvast í undanförnum hlaupum. Því má búast við að hlaupið muni ná hámarki sínu við jaðar Skeiðarárjökuls á föstudag eða laugardag. Starfsmenn Veðurstofunnar vinna nú að mælingum á svæðinu.

Vert er að hafa í huga að brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess mjög nálægt útfalli árinnar við jökuljaðar getur orðið svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Utan þess skapar hlaupið enga hættu fyrir mannvirki og umferð á Skeiðarársandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×