Innlent

Hugmyndir um heilsulaugar við Perluna

Náttúrulegar heilsulaugar með heitum gufum og vaðlaugum í jaðri Perlunnar eru meðal hugmynda sem áhugasamir kaupendur á eigninni íhuga nú en tilboðsfrestur í eignina rennur út á þriðjudag.

Perlan var auglýst til sölu í byrjun september en hún er eitt helsta kennileiti Reykjavíkurborgar og ómissandi þáttur í heimsókn erlendra ferðamanna til landsins.

Tilboðsfresturinn rennur út næstkomandi þriðjudag og hafa margar hugmyndir verið uppi um hvað nýir eigendur gætu ætlað sér að gera við húsið og lóðina en meðal þeirra er spilavíti eða bílasala.

Fréttastofa hefur hinsvegar undir höndum gögn sem sýna uppkast af einni þeirra hugmynda sem upp hafa sprottið um hugsanlega nýtingu Perlunnar á meðal áhugasamra kaupanda.

Samkvæmt gögnum fréttastofu eru hugmyndir um að setja upp heilsulaugar sem byggjast á náttúrulegum heitum laugum við rætur Perlunnar. Laugarnar yrðu frábrugðnar hefðbundnum sundlaugum með áherslu á íslenska náttúru, útsýni og fegurð Reykjavíkur og Perlunnar. Hugmyndin er ekki langsótt, en í tönkunum við Perluna er að finna heitt vatn Reykjavíkurborgar og myndu laugarnar byggjast upp á heitum gufum og vaðlaugum sem yrðu byggðar úr íslensku grjóti í anda náttúru landsins.

Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga er ljóst að húsið yrði áfram til notkunar fyrir ferðamenn sem útsýnisstaður og veitingarekstur. Þá gerir staðsetning eignarinnar og fjöldi heimsókna heilsulaugarnar að ferðmannaparadís, rétt við flest hótel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×