Innlent

Pólítíkin: Vill lækka skatta og gjöld á borgarbúa

Höskuldur Kári Schram skrifar
Halldór Haldórsson borgarfulltrúi
Halldór Haldórsson borgarfulltrúi
Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, segir að bjóða þurfi borgarbúum upp á raunverulega valkosti þegar kemur að íbúalýðræði. Hann telur raunhæft að lækka skatta og gjöld án þess að grípa til blóðugs niðurskurðar.

„Stóru málin hjá okkur eru skólamál, húsnæðismál og velferðarmál í víðum skilningi þessa orðs. Við leggjum einnig alltaf mikla áherslu á rekstrarmál. Borgarbúar reikna með því að reksturinn sé í lagi og vilja kannski ekki hafa hann sem kosningamál. En auðvitað er markmiðið að halda gjöldum í lágmarki og lækka skatta. Sé það möguleiki þá eigum við alltaf að stefna að því. Það á að vera stefna Sjálfstæðisflokksins að lækka skatta. Það eru 18 sveitarfélög á Íslandi sem ekki eru að nýta hámarksútsvarið og af hverju ætti þá langstærsta sveitarfélagið, þar sem hægt er ná mikilli rekstrarhagkvæmni, ekki að geta lækkað útsvarið? Ég sé ekki annað en að það eigi að vera hægt og það þarf engan blóðugan niðurskurð í rekstri til að gera það. Tækifærin í því liggja mjög víða að mínu mati,“ segir Halldór.

Auka lóðaframboð

Halldór vill bregðast við húsnæðisvandanum með því að auka lóðaframboð.

„Vinstri menn bjuggu til lóðaskort. Þeir hafa verið með skortstefnu í lóðamálum sem hefur haft þær afleðingar í för með sér að lóðakostnaður sem hlutfall af verði íbúðar í fjölbýli hefur farið úr 4 prósentum í 17 prósent. Það hækkar auðvitað kaupverð og leiguverð. Við viljum auka lóðaframboð allverulega og setja meira í hendur einkaðila bæði hvað varðar leigu og íbúðaframkvæmdir,“ segir Halldór. Hann segir að borgin eigi ekki að sjá um þessa hluti. „Það er ekki til verri leigusali og rekstraraðili heldur en sveitarfélag. Ég hef séð það í gegnum tíðina. Auðvitað verður borgin að sinna sínum félagslegu skyldum í gegnum félagsbústaði en það hefur hún reyndar ekki gert á þessu kjörtíambili. Við sjáum þarna mikil tækifæri til að virkja einkamarkaðinn og auka lóðaframboð til að lækka verð.“

Betri valkosti fyrir borgarbúa



Sjálfstæðismenn vilja beita sér fyrir auknu íbúalýðræði.

„Grunnurinn að Betri Reykjavík þar sem fólk er að kjósa kemur frá tíð sjálfstæðismanna og við erum auðvitað áhugasöm um aukið íbúalýðræði. En mér sýnist margt af því sem borgarbúar eru að kjósa um í hverfum sé eitthvað sem ætti að vera sjálfsögð og eðlileg mál. Eitthvað sem borgin ætti bara að sinna og íbúar þyrftu ekki að kjósa um. Af hverju þarf fólk að kjósa um að fjarlægja ónýta girðingu á Geldinganesi ef það býr í Grafarvoginum? Ég myndi vilja sjá betri valkosti fyrir borgarbúa og mér finnst áhugavert að setja meira fjármagn í þetta þar sem íbúar geta forgangsraðað,“ segir Halldór.

Bæta umhirðu



Halldór vill bæta hreinsun og umhirðu í borginni.

„Borgin er skítug. Það er ekki brugðist við nógu snemma, t.d. að sópa götur. Það var hér einn dagur um daginn þar sem mengunin var fjórum sinnum meiri en í Peking. Það mætti gera betur í grasslætti og svona almennri umhirðu. Stundum eru þetta kölluð smáu málin en eru auðvitað í augum borgarbúa risastór mál. Við ætlum að gera miklu betur í þessum málum.“ Halldór segir að hægt sé að virkja þá sem nú þiggja fjárhagsaðstoð og bjóða þeim vinnu við hreinsunarstörf. „Við erum með þá stefnu í velferðarmálum að við viljum hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Við sjáum fyrir okkur að geta boðið vinnufæru fólki sem þiggur fjárhagsaðstoð einhvers konar vinnu í staðinn fyrir að vera á fjárhagsaðstoð. Það er mjög mikilvægt. Reisn einstaklingsins verður meiri og fólki líður betur. Kostnaðurinn við að halda borginni hreinni mun þá aukast en það kemur út í minni kostnaði annars staðar,“ segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×