Innlent

Sprenging í járnblendinu á Grundartanga

Engin slasaðist þegar sprenging varð í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi, þar sem snarráður verkstjóri hafði rýmt verksmiðjuna í skyndi rétt áður en sprengingin varð.

Hann varð var við að eitthvað óeðlilegt var á seyði í ofni við framleiðslulínu þar sem veriið er að gera tilraunir með framleiðslu á hágæða kísiljárni. Hann tók enga áhættu og rýmdi húsið strax, en iðnaðarmenn höfðu verið að vinna skammt frá ofninum skömmu áður. Þangað þeyttust meðal annars járnstykki úr ofninum og 13 hundruð gráðu heit málmblanda.

Fjölmennt lögreglu- slökkvi- og sjúkraflutningalið var sent á vettvang frá Akranesi og Borgarnesi enda var í fyrstu óttast að slys hefði orðið.

Fulltrúar ivnnueftirlitsins eru nú á leið á vettvang, sem girtur hefur verið af. Þá ætlar Verkalýðsfélagið á Akranesi að fylgjast með framvindu mála þar sem þetta er önnur sprengingin, sem verður í vreksmiðjunni á þessu ári. Engin slasaðist heldur í fyrri sprengingunni, sem var annars eðlis en þessi, en verkalýðsfélagið treystir ekki á endalausa heppni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×