Erlent

Játa að hafa skipulagt ódæðin 11. september 2001

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Teikning frá réttarhöldunum sem sýnir sakborningana Walid bin Attash og Khalid Sheikh Mohammed í júní síðastliðnum.
Teikning frá réttarhöldunum sem sýnir sakborningana Walid bin Attash og Khalid Sheikh Mohammed í júní síðastliðnum. MYND/AFP/Getty Images

Fimm fangar í Guantanamo-fangelsinu á Kúbu játa nú að hafa skipulagt hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001.

Khalid Sheikh Mohammed og fjórir félagar hans, sem ákærðir eru fyrir að hafa komið að ódæðisverkunum 11. september, tóku óvænt nýja afstöðu í málinu fyrir herdómstól í Guantanamo-fangelsinu í gær og segjast nú játa að hafa verið lykilmenn við skipulagningu árásanna á New York og bandaríska varnarmálaráðuneytið sem verið höfðu í bígerð mánuðum saman á meðan þátttakendurnir lögðu meðal annars stund á flugnám til að geta komið verkinu í framkvæmd.

Mikill úlfaþytur hefur ríkt um réttarhöldin yfir sakborningunum og er skemmst að minnast þess er höfuðsaksóknarinn í málinu sagði sig frá því í fyrra á þeirri forsendu að allur málatilbúnaðurinn væri pólitískur skrípaleikur af hálfu Bandaríkjahers.

Heimildamaður hjá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sagði í viðtali við CNN að játningin væri síðasti sigur stjórnar George Bush áður en hann lætur af embætti. Nokkrir aðstandenda fórnarlamba árásanna haustið 2001 voru viðstaddir þegar Mohammed og félagar hans höfðu uppi játningar sínar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×