Innlent

Fuglahúsunum við Hofsvallagötu fundinn nýr staður

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Framkvæmdir á Hofsvallagötu vöktu talsverðar deilur milli íbúa í Vesturbæ Reykjavíkur og borgarinnar.
Framkvæmdir á Hofsvallagötu vöktu talsverðar deilur milli íbúa í Vesturbæ Reykjavíkur og borgarinnar. mynd/Vilhelm Gunnarsson
Fuglahúsin sem sett voru upp á Hofsvallagötu í Vesturbæ Reykjavíkur síðasta sumar verða notuð á opnum svæðum í borginni, jafnvel á leikskólalóðum. Allir flaggstaurarnir sem settir voru upp á götunni verða nýttir í umferðarmerki. Einhver gróðurkeranna verða áfram á götunni en öðrum verður fundinn nýr staður.

Þetta kemur fram í svari frá Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar, við fyrirspurn Vísis. Eins og fram kom í fréttum Vísis í lok nóvember stóð til að fjarlægja fuglahúsin og flöggin og nú hefur það verið gert.

Járnstaurarnir voru settir upp til þess að hamla umferð að sögn Bjarna. Hann leggur áherslu á að þetta verði allt nýtt aftur og að ekki hafi verið um varanlega lausn að ræða.

Það hafi alltaf staðið til að gera breytingar á Hofsvallagötu. Á næsta ári liggur fyrir að endurnýja alla götuna og leggja varanlega hjólastíga og í fjárfestingaáætlun borgarinnar er 150 milljónum varið til þess verkefnis.

Verkefnið er ekki enn komið á teikniborðið. En þegar hönnunin liggur fyrir verður hún kynnt mjög rækilega fyrir íbúum við og í nágrenni Hofsvallagötu.

„Það er tvímælalaust að ekki var rétt að verki staðið síðast og kynna hefði þurft verkefnið betur fyrir íbúunum,“ segir Bjarni. En breytingarnar við og á Hofsvallagötu voru mjög umdeildar og margir íbúar voru afar ósáttir.


Tengdar fréttir

Umferðarmerkingar gætu skapað vegfarendum hættu

Ekkert samráð var haft við Strætó bs. áður en þrenging Hofsvallagötu hófst í sumar. Þetta segir sviðsstjóri Skipulags- og þróunarsviðs hjá Strætó og bendir á að umferðarteppur myndist á götunni.

Flögg og eyjur hverfa af Hofsvallagötu

Samþykkt var í umhverfis- og skipulagsráði að fjarlægja flögg og eyjur sem eru á Hofsvallagötu. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir að viðurkenna hefði átt mistök. Ósáttur íbúi segir að ganga hefði átt lengra og tvöfalda akreinar nærri ljósum.

Fundað vegna Hofsvallagötu

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti tillögu minnihlutans í borgarstjórn í gær um að boðað yrði til almenns íbúafundar strax á næstu dögum um breytingar á skipulagi Hofsvallagötu og framkvæmdir á götunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×