Innlent

Speglanir drógust saman um þriðjung

Haraldur Guðmundsson skrifar
Landspítalinn framkvæmdi yfir sjö þúsund speglanir árið 2001 en einungis 4.377 árið 2005.
Landspítalinn framkvæmdi yfir sjö þúsund speglanir árið 2001 en einungis 4.377 árið 2005.
Fjöldi ákveðinna speglana á Landspítalanum dróst saman um 33 prósent árið eftir að stjórn spítalans ákvað að hætta að greiða læknum í samræmi við unnin verk á göngudeildum og greiða eingöngu föst laun. Speglunum á einkastofum fjölgaði hins vegar um 167 prósent.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn hagfræðinganna Unu Jónsdóttur og Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur þar sem fjöldi meltingarvegs- og berkjuspeglana á árunum 2000 til 2005 var skoðaður. Þar er litið á desembermánuð 2002 sem vendipunkt því þá ákvað stjórn Landspítalans að fara í breytingar á launagreiðslum til lækna og afnema svokallaða ferliverkasamninga.

„Þá færðust þessi læknisverk í auknum mæli inn á einkastofur þar sem læknar fengu greitt í samræmi við unnin verk,“ segir Una Jónsdóttir og heldur áfram:

„Ef þú ert að fá greitt fyrir hvert læknisverk þá gætirðu haft hvata til að toga í fleiri læknisheimsóknir eða sinna fleiri sjúklingum en þörf er á. Ef þú ert á föstum launum, óháð því hversu mörgum sjúklingum þú sinnir, þá getur maður ímyndað sér að launin hafi þau áhrif að læknir taki á móti færri sjúklingum. Við erum ekki að segja að eitthvað eitt kerfi sé betra en annað en erum einungis að sýna að greiðslur til lækna geta verið mikilvægur áhrifaþáttur í meðferð sjúklings,“ segir Una.

Hún og Tinna Laufey benda einnig á að aðstaða til speglana á spítalanum hafi hugsanlega verið vannýtt eftir að ferliverkasamningunum lauk.

„Við sáum að spítalinn hafði bolmagn til að framkvæma allt að 7.475 speglanir árið 2001 en framkvæmdi einungis 4.377 árið 2005. Þannig má hugsa sér að sóun hafi falist í því að koma upp aðstöðu á einkastofum þegar hún var hugsanlega tiltæk á Landspítalanum.“

Una undirstrikar að rannsóknin hafi einnig leitt í ljós að heildarfjöldi speglana hafi aukist á þessum tíma, en það sé ekki víst að sú aukning hafi verið vegna breytts greiðslufyrirkomulags þar sem speglunum á Sjúkrahúsinu á Akureyri fjölgaði einnig á umræddu tímabili þrátt fyrir að ferliverkasamningarnir séu þar enn í gildi.

„Heildaraukning speglana gæti því verið af öðrum orsökum sem ekki voru til athugunar í rannsókninni. Eftir stendur þó þessi mikla tilfærsla verka á milli þjónustueininga sem verður tæplega skýrð með öðrum hætti en vegna breytinga á greiðslufyrirkomulagi.“

 

Hér má einnig heyra þegar Sigurjón M. Egilsson fjallaði um rannsóknina í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×