Innlent

Lýsa upp Grímsey á miðnætti

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hér má sjá brot af flugeldavarningnum sem eyjaskeggjar kaupa fyrir gamlárskvöld.
Hér má sjá brot af flugeldavarningnum sem eyjaskeggjar kaupa fyrir gamlárskvöld. Mynd/Marek Palyo
Grímseyingar standa fyrir glæsilegri flugeldasýningu á gamlárskvöld og hefur metnaðurinn aukist með hverju árinu.

Bjarni Gylfason er einn þeirra sem tekur þátt í að lýsa upp eyjuna á miðnætti.

„Grímseyingar kaupa flugelda fyrir rúmar tvær milljónir króna. Það er hægt að áætla að hvert heimili, en þau eru 11-12 sem keyptu í ár, kaupi flugelda fyrir um tvö hundruð þúsund krónur,“ segir Bjarni.

Flugeldasýningarnar verða flottari með hverju árinu enda ríkir góðlát samkeppni um hver bjóði upp á bestu sýninguna. Bjarni þykist ekkert kannast við það að vera með bestu sýninguna jafnvel þótt blaðamaður hafi heimildir fyrir öðru. „Allir eru sigurvegarar, allir sem keyptu flugelda og styrktu björgunarsveitina. Við njótum þess svo að horfa á hjá hverju öðru og skjótum upp frameftir nóttu.

Ég var úti til klukkan tvö í nótt með börnunum að skjóta upp enda breytist ég í tólf ára dreng á þessum tíma ársins,“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×