Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir að veitast að lögreglumönnum

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að veitast tvívegis að lögreglumönnum. Hann var ákærður fyrir að hafa sparkað í vinstri sköflung lögreglumanns í komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í október í fyrra. Lögreglumaðurinn, sem var við skyldustörf þegar atvikið átti sér stað, hlaut minniháttar meiðsl. Maðurinn játaði þetta brot sitt. Þá var maðurinn jafnframt ákærður fyrir að hafa sparkað í klof lögreglumanns við skyldustörf í lögreglubíl í Hafnarfirði þann 18. ágúst 2008.

Í niðurstöðu dómsins segir að samkvæmt sakavottorði mannsins hafi hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar beri að líta til þess að brot gegn lögreglumanni að störfum séu litin alvarlegum augum. Ákærði hafi játað fyrra brot sitt. Áverkar hafi hlotist af þeirri árás ákærða, en þeir hafi ekki verið alvarlegir. Að öllu þessu virtu þyki refsing hans hæfilega ákveðin þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×