Erlent

Hræðast notkun hryðjuverkamanna á Google Earth

Grunur leikur á að hryðjuverkamennirnir sem myrtu tæplega 200 manns og særðu fleiri hundruð í Mumbai í síðasta mánuði hafi notað Google Earth forritið til að skipuleggja árásirnar.

Indverski lögfræðingurinn Amit Karkhanis, vill að forritið verði bannað. Hann hefur lagt fram kæru, þar sem segir að Google Earth og sambærileg tækni hjálpi hryðjuverkamönnum að skipuleggja árásir með því að veita þeim aðgang að afar nákvæmum gervihnattamyndum sem þeir nota til að kynna sér skotmörk sín.

Samkvæmt heimildum breska blaðsins The Times hefur breski herinn einnig imprað á þessu vandamáli við Google, eftir að upp komst að írakskir vígamenn notuðu forritið til að skipuleggja árás á breska herstöð í Basra. Myndir af stöðinni voru fjarlægðar.

Á Google Earth eru þó enn afar skýrar myndir af Bhabha kjarnorkuverinu í úttjaðri Mumbai. Það er talið álitlegt skotmark hryðjuverkamanna, en blaðið hefur það eftir kjarnorkusérfræðingi að ef flugvél yrði flogið á verið yrðu afleiðingarnar annað Chernobyl.

Sérfræðingar hafa löngum haft áhyggjur af nýrri tæknivæddri kynslóð hryðjuverkamanna, sem geti nýtt saklaus veftól til illra verka. Í nýlegri skýrslu frá bandaríska hernum er lýst áhyggjum af því að samskiptatækið Twitter verði notað til að skipuleggja hryðjuverkaárásir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×